08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (269)

2. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég vil aðeins með örfáum orðum mótmæla þeirri skoðun, sem kom fram hjá hv. 3. landsk. og hæstv. dómsmrh. reyndi að taka undir aftur, að það væri rangt hjá mér, að stjskr. heimilaði að hafa raðaðan landslista. Ég held því fram, að hún geri það og það skipti engu máli, hvort ákvæði um það er tekið upp í kosningalög eða ekki. Þessu til stuðnings vil ég aðeins minna á það, að í stjskr. er sérákvæði um 10 efstu sæti á landslista. Get ég ekki skilið, hvernig hægt væri að setja ákvæði um 10 efstu menn, ef engin röðun ætti að eiga sér stað á listanum.

Ég hefi ekki veitt því eftirtekt, hvort nokkursstaðar í kosningal.frv. eins og það er nú sé sett bann við þessu, eins og stjórnarskráin ætlast til að það sé, en ef það er í kosningal., þá er það ógilt, en ef það er þar ekki, þá er ákvæði stjskr. jafngilt fyrir því. Ég lít svo á, ef kosningalagafrv. verður gert að l. í núverandi mynd, verði ekki hjá því komizt, að landskjörstjórn hafi fyrir augum bæði stjórnarskrá og kosningalög, þegar á að gera út um þetta. Það er ekkert einsdæmi, að verði að líta til stjskr. einnig, þó að til séu sérstök 1. um sama efni. Ég get sem dæmi upp á þetta aðeins minnt á ákvæði þingskapa um atkvgr. á fundum í Sþ. Um það stendur í 26. gr. þingskapa, að meira en helmingur þm. eigi að vera á fundi og greiða þar atkv., en í stjskr. er dálítið öðruvísi ákvæði um þetta. Þar segir sem sé, að meira en helmingur þm. úr hvorri d. eigi að vera á fundi og taka þar þátt í atkvgr. Þegar forseti á að gæta l. í þessu efni, þá nægir ekki að fara eftir þingsköpum eingöngu, heldur verður þar líka að fara eftir þessu ákvæði stjskr. Á sama hátt lít ég svo á, að þeir, sem eiga að sjá um að kosning fari rétt fram, verði að taka fullt tillit til stjskr. Og þó að ekki fengist meiri hl. í Nd. til að afgr. þetta á þann eina eðlilega hátt, að taka ákvæði stjskr. hér að lútandi óbreytt upp í kosningalög, þá nær engri átt að hugsa sér, að kosningalög geti breytt ákvæðum stjskr. Því verður ekki móti mælt, að stjskr. gerir ráð fyrir röðuðum landslista.

Ég skal svo ljúka þátttöku minni í þessu máli með þeim orðum, að í þessu frv. eins og það er nú er gengið á snið við samkomulag það, sem varð á síðasta þingi um till. í þessu máli, samkomulag, sem ég átti þátt í sem formaður þess flokks, sem ég er í. Ég hefi nú ekki getað fengið samkomulag um það í mínum flokki að standa við hinn gerða samning, og tek ég auðvitað afleiðingunum af því.