25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

3. mál, þingsköp Alþingis

Jakob Möller:

Ég tel það góðra gjalda vert, að hv. 2. þm. N.-M. hefir tekið þessi efni til athugunar, sem valdið hafa sérstaklega ágreiningi hér á Alþ. En ég hefi við þessar till. ýmislegt að athuga.

Viðvíkjandi 1. brtt. verð ég að líta svo á, að tæplega sé ástæða til að samþ. hana, því að það tefur mál lítið, þótt það sé tekið fyrir alveg á ný á næsta þingi, þó að það hafi gengið í gegnum nefndir á næsta þingi á undan. Málið ætti þá að geta fengið fljóta afgreiðslu á síðara þinginu, þegar hinir sömu menn eru í hverri n. eins og á næsta þingi á undan, sem venjulegast er. Ég sé því ekki ástæðu til að breyta þessu frá því, sem verið hefir. Það getur varla verið hætta á því, að málum geti orðið þetta að falli, ef þau hafa fylgi á þinginu, þó að þau verði að ganga í gegnum sömu þingdeildir, sem skipaðar eru sömu mönnum eins og á næsta þingi á undan. Það er nú að segja um þau mál, sem daga uppi á Alþ., að það er venjulegt, að eitthvað þykir athugavert í sambandi við þau, svo að þess vegna ætti ekki að draga úr því, að þau verði athuguð betur.

Um 2. brtt. hv. þm., a- og b-lið, er það að segja, að ég er sammála hv. þm. um það, að rétt sé að setja skýr ákvæði í þessum efnum. En ég hefi samt nokkuð við brtt. þessa að athuga. Ég tek undir það með hv. þm. Str., sem hann sagði viðvíkjandi því, að „forseti eða þingdeild“ dæmi um gildi raka þm. fyrir því að greiða ekki atkv. Ég þykist vita, hvað hér vakir fyrir hv. flm., að það sé, að ef forseti ákveður að taka rökin gild, þá sé það þar með ákveðið, en taki hann þau ekki gild, þá megi skjóta því undir úrskurð d., hvort þau skuli gild talin.

Ég tel, að réttar væri, að hvernig sem forseti úrskurðaði, þá væri heimilt að skjóta þessu undir úrskurð d. Ég tel engan efa á, að það er réttmætt. Annars getur hæglega staðið svo á, að forseta séu gefin 2 atkv. um málið, sem um er að ræða. Ég veit, að þannig hefir verið skýrð gr. í gildandi þingsköpum, að þeir þm. einir gætu skotið þessu undir úrskurð d., sem neituðu að greiða atkv. Þessa skýringu tel ég ranga, en ég tel, að hver þm. í d. eigi rétt á því að skjóta slíku undir úrskurð d. eftir gildandi þingsköpum.

Ég hefi áður lýst yfir því, að ég tel þennan úrskurð rangan, en hér er um ný ákvæði að ræða, og ég álít, að hver þm. eigi að hafa rétt til að skjóta þeim úrskurði undir deildina. Vil ég skjóta því til hv. flm., hvort hann getur ekki fallizt á þetta.

Í b-lið till. er svo ákveðið, að ef ástæður þm. fyrir því að greiða ekki atkv. eru metnar ógildar skuli það teljast til meiri hl. En nú getur staðið svo á, að atkv. séu jöfn, þótt deildarskipun sé ekki sú nú, að slíkt geti komið fyrir, ef allir eru mættir, þótt einn skorizt undan að greiða atkv. En á þessu getur orðið breyting eftir hinu væntanlega fyrirkomulagi eða af því að þingmenn vanti í deildina. En auk þess er þetta með öllu rangt. Atkv. þingmanns, sem skorast undan að greiða atkv. og ástæður hans eru ekki metnar gildar, á auðvitað að teljast á móti málinu. Hann telur af einhverjum ástæðum ekki forsvaranlegt að ljá málinu fylgi sitt, og ógreitt atkv. á aldrei að geta orðið til að koma máli í gegn. Hið gagnstæða er aftur á móti eðlilegt. Því ætti einnig að breyta síðari málsliðnum. Vil ég því skjóta því til flm., að brtt. verði tekin aftur til 3. umr.