25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

3. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. (Bergur Jónsson):

Ég held, að full ástæða sé til að benda á það, að í 1. brtt. hv. 2. þm. N.-M. felst gagngerð breyting á núgildandi þingsköpum. Í núg. þingsköpum eru heimtaðar þrjár umræður um hvert mál í hvorri deild. Ef hans regla verður tekin upp, væru þing milli kosninga í rauninni eitt samanhangandi þing, sem þá ætti aldrei að slíta, heldur fresta. Við getum t. d. hugsað okkur, að tvær umr. fari fram um mál í annari deildinni sama árið og það er borið fram. Á næsta þingi er svo lokið 3. umr. í sömu deild. Þriðja árið fara fram tvær umr. í hinni deildinni og lokið þar við 3. umr. fjórða árið. Þá yrði málið afgr. á fjórum þingum. Þetta myndi gera starfshætti Alþingis silalega og afkáralega. Og þótt almennar alþingiskosningar fari ekki fram, getur samt orðið breyting á skipun þingsins, t. d. með varamönnum í uppbótarsæti. Þetta er því alveg gagngerð umsteypa á núgildandi þingsköpum, og því tel ég ekki rétt á þessu stigi að taka þetta alvarlega.

Hv. þm. Str. minntist á sérstakan ræðustól. Hvað sem öllum teikningum líður, tel ég ástæðulaust að óttast afdrif þessa máls, þar sem forsetum er falið að athuga málið og gera sínar till. um það.

Hv. þm. Str. benti á það og hv. 1. þm. Reykv. tók undir það, að það væri óskýrt orðað hjá hv. 2. þm. N.-M., að atkvæðisbær teljist þm. nema forseti eða þingdeild hafi metið rök hans gild. En þetta er alveg skýrt. Ef forseti metur rökin gild, er það nægilegt. Vilji þm. ekki beygja sig fyrir úrskurði forseta, má skjóta honum til deildarinnar.

Hv. 1. þm. Reykv. minntist á aðra brtt. á sama þskj., og lagði til, að ógreitt atkv. væri talið mótatkv. Hingað til hefir sú regla almennt verið látin gilda, að þögn sé sama og samþykki. Hitt er rétt, að ákvæði vantar um það, hve með slíkt atkvæði skuli farið, ef greidd atkv. eru jöfn. En samkv. þingsköpum nú er mál fallið, ef atkv. eru jöfn. Ég held því, að rétt væri að geyma þessa till. til 3. umr.