13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

4. mál, samkomudag reglulegs Alþingis árið 1934

Frsm. (Pétur Magnússon):

Um þetta mál þarf ég fátt að segja í viðbót við það, sem tekið er fram í nál. á þskj. 14. Því var hreyft í n., hvort rétt mundi að gera till. um að breyta ákvæðinu um samkomudag Alþ. til frambúðar og færa hann til haustsins. Það, sem mæla þótti með því, var, að fjárhagsútkomu síðasta árs mætti betur sjá þegar lengra væri liðið frá áramótum, og einnig hitt, að auðveldara mundi verða að haustinu að gera fjárhagsáætlanir fyrir næsta fjárhagsár.

Hinsvegar álíta sumir, að ýmsum þm. mundi þykja óheppilegri þingtími frá 1. okt. til 15. desember heldur en síðari hluti vetrar, sérstaklega sveitabændum, sem sinna þyrftu sínum haustönnum. — Fyrr að haustinu en 1. okt. er varla hugsanlegt að kalla Alþingi saman, og lokið verður því að vera ekki síðar en 15. desember, vegna þess að mjög óheppilegt er, og jafnvel ófært, að það standi fram yfir nýár, vegna fjárlagaafgreiðslu fyrir komandi ár. En sé haustþingi ekki lokið fyrir þann tíma — 15. des. —, er ákaflega hætt við, að það standi svo lengi. Þm., sem ekki eru búsettir hér í bænum, mundi þykja slæmt að þurfa að vera hér um hátíðirnar. Auk þess hygg ég, að þm. mundu verða fremur lausir við, svo að illa mundu vinnast þingstörf um það leyti.

Menn gera sér vonir um, að hin nýja skipun á afgreiðslu fjárlaga samkv. hinu nýja stjskrfrv. verði til þess, að þingtíminn verði styttri en verið hefir að undanförnu. Hvort þessar vonir rætast, úr því getur reynslan ein skorið.

N. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og álítur rétt að sjá á næsta Alþ., hver áhrif hin nýja skipun um meðferð fjárl. kann að hafa, áður en ráðizt er í að breyta samkomudegi Alþ. til frambúðar.