13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

4. mál, samkomudag reglulegs Alþingis árið 1934

Magnús Jónsson:

Þar sem hér liggur ekki annað fyrir en að ákveða samkomudag Alþingis í eitt skipti síðar á árinu en venja er til og engar brtt. hafa komið fram við frv., þá eru þessar umr. í raun og veru óþarfar. Þó þykir mér að einu leyti vænt um þessar umr. Ég er sem sé þeirrar skoðunar, að ekki sé auðvelt að finna heppilegri þingtíma en þann, sem nú tíðkast. Mér hefir reyndar virzt sem flestir væru þar á annari skoðun, og þykir mér því vænt um að heyra hér raddir, sem styrkja mitt álit í þessu efni. — Hér hefir verið hringlað fram og aftur um þetta, og að litlu gagni. En það mun mála sannast, að enginn tími árs verður valinn svo, að ekki sé eitthvað hægt að honum að finna. Á öllum tímum eru einhverjir gallar fyrir einhverja stétt manna. Ég hefi aðallega heyrt tvær ástæður færðar fram gegn þeim þingtíma, sem nú er tíðkaður.

Önnur er sú, að, óheppilegt sé, að fjárl. séu samin svo löngu áður en þau ganga í gildi, en hin, að þing vilji oft dragast fram á vor.

Um fyrri ástæðuna er það að segja, að fyrst verður að benda á skaða, sem af þessu hafi hlotizt, áður en hægt sé að taka hana til greina. Ég hefi ekki orðið var við slíkt. Ég get ekki séð, að þau mistök, sem orðið hafa á fjármálastjórn okkar, hafi átt þangað rætur sínar að rekja. Ég vil láta það koma greinilega fram, að of snemmt sé að semja fjárl. að vetrinum, áður en farið er að breyta þessu.

Hinni ástæðunni má snúa upp í röksemd gegn því, að þingið komi saman að haustinu. Till. um að þingið komi saman 1. okt. er byggð á þeirri hugsun, að hægt sé að ljúka því fyrir jól, eða að hægt sé a. m. k. að ljúka afgreiðslu fjárl. fyrir áramót. En það er hætt við því, að þetta gæti stundum brugðizt.

Yfirleitt er heppilegast að halda Alþingi á dauðasta tíma ársins, sem er frá miðjum febr. og fram undir vor. Ég veit ekki um nema eina stétt manna, sem myndi eiga erfitt með að sækja þing á þessum tíma, en það eru kennarar, sem starfa utan Rvíkur. En aldrei verður á allt kosið. Þá ber og á það að líta, að þetta er ekki dýr tími fyrir allflesta. — En ef Alþingi ætti að koma saman 1. okt, þá er ég hræddur um, að oftar myndi reka að því, að því yrði ekki lokið fyrir jól. Þau mál, sem mest hafa tafið undanfarin þing, eru mál, sem menn skilja yfirleitt ekki við fyrr en lokið er, ekki heldur, þótt það drægist fram yfir jól. Þykir mér líklegt, að margir þm. myndu kunna því miður vel að þurfa að sitja hér um hátíðirnar, fjarri heimili og ættingjum. Held ég því, að það sé heppileg ráðstöfun hjá hv. n. að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt. Fæst með því móti reynsla um málið, og ef mönnum litist þá betur á að heyja þingið í skammdeginu, mætti vitanlega taka upp þá reglu.

Annars lízt mér ekki ólíklegt, að hér muni fyrr eða síðar verða horfið að því ráði, sem nágrannar okkar hafa tekið upp, að takmarka ræðutíma þingmanna. Væri þá líka athugandi, hvort ekki mætti takmarka prentun á ræðum, sem hér eru haldnar. Hygg ég, að ekki væri stór skaði á orðinn, þótt það kæmi ekki allt í þingtíðindum. Fleiru mætti breyta í þingsköpum, til þess að gera þinghaldið ódýrara.