13.11.1933
Efri deild: 8. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

6. mál, útflutningsgjald af síld o.fl

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þessu frv. víkur svo við, að á síðasta Alþingi voru afgr. 1. um breyt. á löggjöfinni um útflutningsgjald af síld, þskj. 619 í Alþt. 1933. Þessi l. fólu í sér tvær efnisbreyt. á núgildandi löggjöf. Fyrst þá, að sérstakt útflutningsgjald af hverri síldartunnu, sem nú er 1 kr., skuli aðeins gilda um saltsíld, svo að ný og fryst síld er þar undanþegin útflutningsgjaldi. Hin breytingin er sú, að hið sérstaka útflutningsgjald af þurrkuðu fiskimjöli skuli vera 1 kr. af hverjum 100 kg. Á þessari afgreiðslu var sá formgalli, að þetta var orðað sem breyting á l. frá 1929, um útflutningsgjald, án þess að athugað væri, að þessu hafði verið breytt með lögum frá 1931, sem færðu útflutningsgjaldið úr kr. 1,50 niður á eina krónu. Stj. lagði því ekki lögin, er samþ. voru á síðasta þingi, fyrir konung, með því að þar var ekki vitnað í bæði lögin frá 1929 og 1931, heldur gaf út bráðabirgðalög. Nefndin varð sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ., en telur þó þennan formgalla á lögunum eigi hafa verið nægilega ástæðu til að láta undir höfuð leggjast að leggja þau fyrir konung, því að lögin hefðu aldrei getað valdið neinum misskilningi og engin haft hag af því að leggja annan skilning í lögin en Alþingi ætlaðist til. Nefndin vill ekki, að það verði að fordæmi, að óverulegir formgallar verði til þess, að stj. láti fyrirfarast að leita lögum konungsstaðfestingar.