07.11.1933
Efri deild: 3. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

7. mál, tolllög

Jón Baldvinsson:

Það liggur eitthvað illa á hæstv. ráðh. í dag, og skal ég ekki vera að ergja hann. En augljóst er, að eitthvað hefir þurft að umbæta hans handaverk, úr því að hann þurfti að gefa út öll þessi bráðabirgðalög. Um verðtollslögin er það að segja, að ég greiddi atkv. á móti þeim og ber því enga ábyrgð á þeim. Ég held því, að öll rök sýkni mig af þátttöku í þessu. Hinsvegar er það sjálfsagt rétt, að hæstv. ráðh. og þingið á líka sök á þessum mistökum, en enginn aðili þó meiri en hæstv. fjmrh., sem samkv. stöðu sinni átti að vera leiðbeinandi í afgreiðslu þessara mála á þinginu.