29.11.1933
Efri deild: 22. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

9. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þetta frv. er komið frá Nd., þar sem það mætti engri mótspyrnu. Það hefir legið fyrir allshn. þessarar d., sem hefir lagt til, að það nái fram að ganga.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, eru það tvennskonar breyt., sem þessu frv. er ætlað að gera á núgildandi ákvæðum um kosningarrétt í málefnum sveita og kaupstaða. Breyt. eru þær annarsvegar, að í staðinn fyrir að 3. liður 1. gr. er nú orðaður þannig, að skilyrði fyrir því, að maður geti haft þennan kosningarrétt sé, að hann sé fjár síns ráðandi, þá á nú að breyta þessu ákvæði þannig, að skilyrðið sé, að hann sé fjárráður. Það er nú orðið gerður greinarmunur á þessu í l. Fjárráður er látið tákna þann hæfileika, að geta sjálfur ráðið yfir fé sínu og tekið á sig fjárhagslegar skuldbindingar. En að vera fjár síns ráðandi er látið tákna, að viðkomandi maður geti framkvæmt þennan rétt. T. d. er maður ekki fjár síns ráðandi, ef bú hans hefir verið tekið til gjaldþrotaskipta, enda þótt hann sé fjárráður.

Þessi till. til breyt. á þessu er fram komin til þess að samræma l. um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða við þau ákvæði, sem nú eftir hinni nýju stjórnarskipun koma inn í kosningal. til Alþingis. Það sýnist einsætt, að ekki verði gerðar harðari kröfur í þessu efni viðvíkjandi kosningarrétti í málefnum sveitar- og bæjarfélaga heldur en um kosningar til Alþ.

Hitt ákvæðið, sem ætlazt er til, að breytt sé, er 6. liður í l. nr. 59 14. júní 1929. Hann er um skilyrði fyrir kosningarrétti í málefnum sveitar- og bæjarfélaga, að menn standi ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk vegna leti, óreglu eða hirðuleysis sjálfra sín. Þetta ákvæði er fellt niður, og hverfa þar með hinar síðustu leifar þeirra ákvæða, að maður missi kosningarrétt vegna skulda. Þetta ákvæði hefir verið numið úr l. um kosningarrétt til Alþ., og virðist því eðlilegt, að það sé einnig numið úr gildi viðvíkjandi kosningarrétti í málefnum sveitar- og bæjarfélaga. Tilgangur frv. er því að færa til samræmis ákvæðin um kosningarrétt á þessum tveimur sviðum.

Ég gat þess, að allshn. hefði einróma lagt til, að frv. næði fram að ganga, og vil ég fyrir n. hönd mæla með því við hv. d.