22.11.1933
Neðri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (438)

22. mál, lögreglustjóri í Bolungarvík

Vilmundur Jónsson:

Ég vildi út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði, geta þess, að með þessu er ekki skapað neitt fordæmi. Það hefir þegar verið gert, eins og hv. þm. Borgf. gat um, þegar hann minntist á Akranes. Ef rannsókn ætti að fara fram á því, hve mörg þorp teldu sig þurfa að fá sérstakan lögreglustjóra, yrði að láta bréf ganga á milli þorpanna, sem líkleg eru eða gætu orðið til þess að gera kröfur í þá átt, og mundi það verða lítil sparnaðarráðstöfun. Því að það gæti einmitt orðið til þess, að kröfurnar í þessum efnum kæmu fram fyrr en ella, og jafnvel frá þeim, sem mundi alls ekki detta í hug að bera þær fram. Eins og hv. þm. Borgf. gat um, er ósanngjarnt að standa á móti þessu hvað Bolungavík og Keflavík snertir, þar sem fordæmið er þegar gefið. Mér er ekki það kappsmál, að brtt. n. við frv. verði samþ. að ég vildi ekki vinna til, að frv. væri óbreytt, ef það fyrir það fengi fram að ganga. Ég hefi þó ekki umboð meiri hl. n. til þess að taka brtt. beinlínis aftur. — Það er ekki rétt, að oddviti hreppsn. þurfi að sjálfsögðu að eiga atkvæðisrétt í n. Enginn kvartar undan því, þótt bæjarstjóri hafi ekki atkv.rétt í bæjarstjórn, nema hann sé sérstaklega til þess kjörinn. Ég mun þó sætta mig við, að brtt. verði felld, ef það er nauðsynlegt til að tryggja framgang málsins.