08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Afgreiðsla þingmála

Jónas Jónsson:

Ég þakka fyrir þessar upplýsingar, og álít ég, eftir því sem hv. form. landbn. hefir skýrt frá, að hann sem form. n. hafi sýnt áhuga í málinu. En aftur á móti finnst mér ekki eins hægt að róma áhuga hinna, sem spurðir voru.

En viðvíkjandi því, sem hv. þm. Hafnf. sagði um gang málsins í fjvn., þá vil ég segja það, að það er að vísu allmikil úrlausn út af fyrir sig, en ég álít það eðlilegra, að málið hefði verið sent strax til vegamálastjóra, af því að hann hefir einmitt haft með þetta mál að gera, sem b- liður till. fjallar um. Það er nokkuð bagalegt, að málið skuli ekki hafa komizt lengra en þetta, því að mér er kunnugt um, að vegamálastjóri hefir látið þess getið við ríkisstj., að það þyrfti nauðsynlega að halda þessu verki áfram á næsta sumri. Ég vil því skjóta því til hv. form. fjvn., hvort hann sjái sér ekki fært, að n. taki málið fyrir og segi álit sitt um það, sem ríkisstj. svo getur haft til stuðnings við væntanlegar framkvæmdir á næsta sumri.