08.12.1933
Efri deild: 29. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Jónsson:

Það er aðeins út af því, að mér skildist gæta nokkurrar vandlætingarsemi hjá hv. 4. landsk. um það, hve n. skiluðu seint áliti, að ég vil beina til hans fyrirspurn um, hvers vegna hann er svo lengi að afgr. af sinni hálfu nál. um frv. til laga um afnám innflutningshaftanna, sem sent var til hv. allshn. Ég geri þetta aðeins til þess að gera hv. 4. landsk. það sálfræðilega skiljanlegt, að það getur komið fyrir, að mál þvælist fyrir mönnum. Þetta mál var borið fram í þingbyrjun, og þrátt fyrir, að margra umsagna hefir verið leitað, hefir meiri hl. allshn. skilað áliti fyrir löngu, en það hefir verið haft að yfirvarpi að taka málið ekki á dagskrá, að minni hl. hafði ekki skilað áliti. Ég leyfi mér því að spyrja hv. 4. landsk., hvers vegna hann hefir dregið það svo lengi að skila áliti um þetta mál.