25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

46. mál, lögreglustjóri í Keflavík

Thor Thors:

Hv. þm. Barð. hefir skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og er mér ekki ljóst, í hverju hann getur verið fólginn, þar sem hann var fylgjandi frv. um lögreglustjóra í Bolungavík. Hinsvegar höfum við hv. 1. þm. Rang. sama fyrirvara um þetta frv. og við frv. um lögreglustjóra í Bolungavík. Við teljum það ekki vera verksvið þessa þings að stofna til nýrra embætta. En þar sem hv. þd. hefir nú samþ., að skipaður verði lögreglustjóri í Bolungavík, þá munum við ekki leggja stein í götu þessa frv., því það er þó miklu frekar þörf á lögreglustjóra í Keflavík, sem hefir talsvert fleiri íbúa en Bolungavík. Ég hygg, að samkv. manntalinu 1931 hafi verið um 1000 íbúar í Keflavík, en aðeins um 630 í Bolungavík. Við hv. 1. þm. Rang. teljum rétt, að þetta frv. hljóti góða afgreiðslu í þd., úr því að meiri hl. þdm. er áður búinn að lýsa þeirri skoðun sinni, að hin fjölmennari kauptún eigi að fá sérstakan lögreglustjóra.