04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

46. mál, lögreglustjóri í Keflavík

Frsm. (Jónas Jónsson):

Eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Rang., þá stendur líkt á með þetta frv. og frv. um lögreglustjóra í Bolungavík. Allshn. hefir verið velviljuð þessu máli, þó að einn nm. skrifi undir með fyrirvara. En ástæðan til þess er sú, að þau stóru þorp, sem hér er um að ræða, eru orðin það fólksmörg, að það er hér um bil ómögulegt að hafa sveitarstjórn þar í lagi, nema sérstakur starfsmaður sé í þorpinu til þess, og þykir þá heppilegt, að sá starfsmaður geti haft annað og fleira á hendi. En það má fullyrða, að ástæðan til, að Akranes sótti eftir þessari heimild, var sú, að störf oddvita voru að vaxa honum yfir höfuð.

Ég er ekki sömu skoðunar og hv. 2. þm. Rang., sem álítur, að lögreglustjóri í þessu umdæmi hafi rétt til að fá meiri tekjur úr ríkissjóði en hér er talað um. Ég álít, að það, sem seinna þarf að auka við kaup þeirra, eigi að koma niður á bænum, því að það er ekki vegna löggæzlu eða dómsmála, að stofna þarf þetta embætti, heldur er það vegna sveitarstjórnarmálanna.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál. Hér gildir það sama og um Bolungavík, og geri ég því ráð fyrir, að vel verði tekið á móti þessu frv.