25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

72. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands hf

Frsm. (Ólafur Thors):

Á síðasta Alþingi var samþ. heimild handa ríkisstj. til þess að ábyrgjast 100 þús. sterl. punda lán fyrir Útvegsbanka Íslands. Það var tilskilið, að þessu fé skyldi varið til kaupa á víxlum útvegsmanna, gegn veði í framleiðsluvörum þeirra. Fjhn. hefir fengið umsögn bankastjórnar Útvegsbankans um það, að þessu skilyrði Alþingis hafi verið fullnægt. En það kom fljótt í ljós, að þessi upphæð fullnægði ekki lánsþörfum útvegsmanna. Bankaráð Útvegsbankans hefir því beðið fjhn. að flytja frv. þess efnis, að ábyrgðarheimild sú, sem samþ. var á síðasta þingi, verði færð úr 100 þús. pund. upp í 150 þús. pund. í grg. frv., sem samin er af bankaráði Útvegsb., er þess getið, að bankinn skuldbindi sig til þess, eins og að undanförnu, að lána útvegsmönnum þetta fé gegn veði í framleiðsluvörum þeirra. Fjhn. verður því að líta svo á, að þessari ábyrgð fylgi lítil eða engin áhætta fyrir ríkissjóð, svo framarlega sem gengið er út frá því, að bankastjórnin standi við loforð sín og skuldbindingar, eins og um getur í grg. frv.

Það orkar ekki tvímælis, að útvegsmenn hafa mikla þörf fyrir þessi lán, og fjhn. er á einu máli um að mæla með því, að þessi ábyrgðarheimild verði hækkuð eins og fram á er farið í frv., og væntir hún þess, að hv. Alþ. samþ. það fljótt og mótmælalaust.