04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

72. mál, rekstrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands hf

Frsm. (Jón Þorláksson):

Frv. þetta er komið frá hv. Nd„ og fer fram á, að heimild stj. til að ábyrgjast rekstrarlán fyrir Útvegsbankann verði aukin úr 100 þús. sterlingspundum í 150 þús. sterlingspund. Sú ástæða er færð fyrir þessum tilmælum af bankans hálfu, að með því fé, sem hann hefir til umráða, geti hann ekki sinnt réttmætum og tryggum beiðnum um rekstrarlán gegn veði í fiski, og hafi þetta orðið til þess, að ýms fyrirtæki, sem starfa hér, hafi neyðzt til þess að snúa sér beint til útlanda með rekstrarlán og sæti þar mun lakari kjörum en Útvegsbankinn sætir. Það varð því ofan á í fjhn. að mæla með því, að þessi ábyrgðarheimild yrði rýmkuð; gerði n. það og í trausti þess, að stj. hefði eftirlit með því, að fé það, sem bankanum kann þannig að áskotnast, verði notað sem rekstrarfé, en festist ekki hjá honum. Annars er það svo með Útvegsbankann, að það ríður mikið á því að koma honum á réttan kjöl, þar sem þar situr svo mikið fé frá ríkissjóði í hlutafé, að það skiptir milljónum, og ríkissjóður þolir því ekki að missa. Hér ríður því á að hlúa svo að bankanum, að hann geti komizt úr þeirri kreppu, sem hann er nú í, og verði megnugur þess að svara vöxtum, bæði af því fé, sem ríkissjóður og einstaklingar eiga í honum. Leggur n. því til, að frv. þetta verði samþ. Hinsvegar dylst það ekki, að það þarf að gera miklu víðtækari ráðstafanir en þetta, ef fé það, sem ríkissjóður á í bankanum, á ekki að hverfa og verða að engu.