17.11.1933
Efri deild: 12. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

10. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Jónsson):

Landbn. hefir ekki getað tekið viðaukatill. hv. 2. þm. Árn. fyrir á reglulegum fundi, sökum lasleika eins nm. Hinsvegar höfum við nm. borið okkur saman um þær utan nefndarfunda. Við höfum óbundin atkv. um till., og tala ég því aðeins fyrir mig persónulega. Ég efast ekki um, að till. séu bornar fram til að gera lögin aðgengilegri, en ég held, að sá tilgangur náist ekki með þeim.

Í 1. a. er lagt til, að 2. tölul. 5. gr. laganna falli niður, en efni hans er það, að það sé skilyrði fyrir lánveitingu, að lánbeiðandi hafi þann bústofn, „sem að áliti sjóðstjórnarinnar er nægilegur til framfærslu fjölskyldu hans samhliða öðrum tekjuvonum“.

Í 6. lið sömu gr. er það skilyrði ennfremur sett, að lánbeiðandi „geti að dómi sjóðstjórnarinnar staðið undir árlegum greiðslum af lánum sínum, er hann hefir fengið stuðning samkv. lögum þessum, samhliða heilbrigðum búrekstri“.

Þessi tvenn skilyrði eru skyld og eru sett í ákveðnum tilgangi. Markmið laganna er fyrst og fremst að hjálpa bændum til búskapar framvegis á heilbrigðum grundvelli. Ef hægt er að ganga að þeim jafnt eftir sem áður, er allri hjálpsemi kastað á glæ. En skilyrði fyrir því, að svo verði ekki, er það ákvæði, sem felst í 2. lið 5. gr., að bústofninn nægi lánbeiðanda og fjölskyldu hans til framfærslu samhliða öðrum tekjuvonum. En mér skilst, að hv. 2. þm. Árn. hafi sézt yfir niðurlag liðsins, þar sem líka er gert ráð fyrir öðrum tekjum. Því var það á misskilningi byggt, er hann fór að tala um það af talsverðri viðkvæmni, að það væri hart, að maður, sem misst hefði búfé sitt af slysum, gæti ekki fengið lán, þótt hann hefði aðrar tekjur eða tekjuvonir. Má að vísu segja, að ekki skipti öllu máli, þótt 2. liður 5. gr. væri felldur niður, þar sem aðalefni hans er tekið fram í b.-lið, en ég get ekki séð, að það geti orðið til bóta á nokkurn hátt.

Þá kem ég að þeirri brtt. hv. þm., að nema úr lögum þann voða, sem honum finnst liggja í því, að nöfn bænda birtist í Lögbirtingablaðinu. Ég get nú ekki séð, að bændum geti stafað neinn háski eða óvirðing af þessari nafnabirtingu. Einskis annars er getið í sambandi við nöfn þeirra en þess, að þeir hafi sótt um lán, og jafnframt skorað á kröfuhafa að segja til sín. Þar er hvergi minnzt á neina eftirgjöf né annað, sem nokkrum manni á að geta fundizt niðurlægjandi.

Ef menn eru svo viðkvæmir fyrir því, að það vitnist, að þeir sæki um lán úr Kreppulánasjóði, eins og hv. 2. þm. Árn. virðist álíta, verð ég að telja mjög vafasamt, að það fyrirkomulag, sem hann stingur upp á, sé til bóta. Ég hygg, að menn séu yfirleitt viðkvæmari fyrir því, að menn í nágrenni og nærsveitum eigi aðgang að upplýsingum um efnahag þeirra, en þótt einhverjir, sem alls ekki þekkja þá, lesi auglýsingu um það í Lögbirtingablaðinu, að þeir hafi sótt um lán út Kreppulánasjóði.

Ég held því, að engin ástæða sé til þess að breyta því fyrirkomulagi, sem nú er á þessum efnum. Eins og nú er um hnútana búið, hafa lánardrottnar ekki yfir neinu að kvarta, og þurfa ekki að vera að snapa saman upplýsingar um skuldunauta sína úti um landsbyggðina. Auk þess mundi hið breytta fyrirkomulag auka hreppsnefndum fyrirhöfn.

Ég hefi farið allýtarlega gegnum till. þessar og verð að segja, að mér finnst innihaldið ekki mikið í hlutfalli við umbúðirnar.

Einkennilegt er það líka í meira lagi, að samkv. till. á lánbeiðandi ekki að senda umsókn sjálfur, heldur aðrir fyrir hann.

Þótt ég efist ekki um, að till. þessar séu bornar fram af góðum hug, verð ég þó að leggjast á móti þeim og mælast til þess, að hv. d. samþ. frv. eins og það liggur fyrir.