27.11.1933
Neðri deild: 20. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (587)

10. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Landbn. hefir athugað þetta mál og leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Eins og hv. þdm. vita, þá er þetta frv. flutt af tveim mönnum í Ed., sem báðir eiga sæti í stjórn Kreppulánasjóðsins og eru því þeim málum allra manna kunnugastir.

Frv. fer fram á, að ráðstafanir verði gerðar til, að hægt sé að taka lausafjárveð gilt sem tryggingu fyrir láni úr sjóðnum. Nú er það kunnugt, að margir bændur eru svo settir, og sérstaklega þeir, sem helzt þurfa að fá lán úr sjóðnum, að þeir hafa enga tryggingu að setja aðra en lausafjárveð. Þess vegna er það mjög nauðsynlegt, að sjóðurinn geti tekið slík lán gild. Á þessu eru vandkvæði samkv. núgildandi 1. um veð, og er þessu frv. ætlað að bæta úr því.

Ég sé svo ekki ástæðu til að skýra þetta mál nánar, en vona, að það fái að ganga hindrunarlaust í gegnum þingið.