05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

10. mál, Kreppulánasjóður

Jón Þorláksson:

Ég hefi tekið eftir því, að það hefir komið ákvæði inn í frv., sem ég held, að hafi ekki verið þar, þegar frv. fór út úr d., sem ég er hræddur um, að geti ekki með nokkru móti staðizt. Þetta ákvæði er um það, ef maður, sem hefir veðsett lánsfé sitt með þeirri afarvíðtæku veðsetningu, sem frv. heimilar, flytur í annað lögsagnarumdæmi, kannske í annan landsfjórðung, þá eigi hún að gilda þar líka, þó að hún sé ekki þinglesin þar, og skil ég ekki, hvernig hv. þm. hugsa sér, að það geti átt sér stað, að slíkt megi samþ. Hverju má treysta í viðskiptum, ef ekki er hægt að vita um mann, sem er aðfluttur inn í héraðið, hvort allar þær eignir, sem hann á og eignast kann, eru veðsettar eða ekki, og engar upplýsingar hægt að fá um það í veðmálabókum þar, sem hann er búsettur. Mér finnst eðlilegt, að menn vilji forðast óþarfa kostnað af þessu, en ég gæti þá mjög vel fallizt á, að innfærsla í veðmálabók, sem mér sýnist, að þurfi að fara fram í umdæminu, þar sem hlutaðeigandi búsetur sig, verði sem skylduverk hlutaðeigandi embættismanns, án þess að nokkrum sé bakaður af því kostnaður. En ég veit ekki, hvernig t. d. verzlanir eiga að fara að, þegar menn koma til þeirra, sem eru fluttir annarsstaðar að, ef ekki er hægt í þeirra umdæmi að vita, hvort allt, sem þeir eiga og eignast kunna, er veðsett eða ekki.