05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (604)

10. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Magnússon:

Það er alveg rétt, sem hv. 1. landsk. sagði, að þetta er óviðkunnanlegt ákvæði, en sannleikurinn er sá, að svo framarlega sem á að fara inn á þá braut að láta Kreppulánasjóð lána gegn lausafjárveði, verður varla hjá því komizt að setja slík ákvæði sem þetta. Ef gert er ráð fyrir, að hundruð eða þúsundir manna veðsetji sjóðnum lausafé sitt, þá verður óframkvæmanlegt fyrir stjórn sjóðsins að fylgjast með þeim flutningum, sem kynnu að verða hjá lántakendum sjóðsins. Það yrði að gera alveg sérstaklegar ráðstafanir til að fylgjast nægilega vel með flutningum skuldunauta, og í framkvæmdinni yrði það mjög erfitt. En svo vil ég benda hv. 1. landsk. á það, að í raun og veru er þetta ákaflega þýðingarlítið atriði, af því að í l. um Kreppulánasjóð er ákvæði, sem gerir það að verkum, að kröfur hans ganga á undan lausafjárveði. Þess vegna má segja, að lausafjárveð í Kreppulánasjóði sé ekki mikils virði. Það er eingöngu gert til að útiloka, að öðrum verði veðsett lausaféð. Að öðru leyti veitir lausafjárveð sjóðnum ekki frekar tryggingu en hann hefir samkv. því ákvæði 1., að skuldir hans skuli ganga á undan lausafjárveði. En af því leiðir aftur það, að aðra skuldheimtumenn lántakenda í Kreppulánasjóði varðar ekki svo mikið um það, hvort lausaféð er veðsett eða ekki. Það eina, sem þeir þurfa að vita, er það, hvort hlutaðeigandi skuldar Kreppulánasjóði. Það væri þess vegna alveg sama ástæða til að láta þinglýsa handveði.

Mér sýnist þess vegna, eins og allt er í pottinn búið, að þótt ákvæðið sé óviðkunnanlegt, þá sé ekki ástæða til að vera á móti því. Þetta eru allt vandræðaráðstafanir, og þess vegna verða mörg vandræðaákvæði að koma þar inn, og þetta er eitt af þeim.