05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (605)

10. mál, Kreppulánasjóður

Jón Þorláksson:

Mér heyrðist á fyrstu ummælum hv. 2. þm. Rang., að hann skildi orð mín svo, að ég væri yfir höfuð á móti því, að Kreppulánasjóður fengi rétt til að fá veð slík sem hér um ræðir (PM: Nei, nei.), en það var alls ekki meiningin, heldur leit ég þannig á, að þegar maður flytti milli landshluta, þá sé þeirra aðeins getið í veðmálabókum, þar sem hann áður var. Það getur verið, að þetta hafi ekki mikla þýðingu, vegna þess að kröfur Kreppulánasjóðs ganga fyrir lausafjárveðsetningu, og megi þess vegna láta nægja að láta manninum fylgja milli lögsagnarumdæma skýrslu um það, að hann yfir höfuð skuldi Kreppulánasjóði. En samt er það svo, að þótt hann skuldi Kreppulánasjóði, þá hefir hann að vísu rétt til að veðsetja lausafé sitt, ef það er ekki veðsett Kreppulánasjóði. En sá, sem veðið tekur, á það undir högum mannsins að öðru leyti, hvort Kreppulánasjóður notar rétt sinn til að taka það á undan veðhafa. Það er ekki víst, að svo verði í öllum tilfellum, en það getur samt hugsazt, að svo verði eftir nokkur ár, þá verði margir heiðarlegir menn, sem standa í skilum við Kreppulánasjóð, samt komnir í þær kringumstæður, að þeir hafi orðið að veðsetja lausafé sitt. Ég nefni t. d. kaup á einhverjum grip gegn einhverjum greiðslufresti, þá er það ekki óeðlilegt undir slíkum kringumstæðum, að menn veðsetji þennan grip. En ef maðurinn hefir áður veðsett Kreppulánasjóði allt lausafé, sem hann á og eignast kann, þá getur hann ekki framkvæmt slíka veðsetningu. Það eru margir, sem flytja til Reykjavíkur af öllum landsins hornum. Þá er mikil eyða í allt þetta kerfi, ef svo á að vera, að menn, sem hingað eru fluttir, eiga árum saman að vera undir þeirri kvöð, að allt þeirra lausafé sé fyrirfram veðsett Kreppulánasjóði, án þess að hægt sé að sjá um það í viðkomandi veðmálabókum. Þetta held ég, að geti ekki staðið til langframa, en ég held, að úr þessu mætti bæta með einfaldri ráðstöfun. Ég get ekki metið gilda þá mótbáru hv. 2. þm. Rang., að það sé svo ákaflega mikil fyrirhöfn fyrir Kreppulánasjóð að fylgjast með því, hvar skuldunautar hans eru búsettir; hann verður að gera það hvort sem er. Þá finnst mér hitt heldur fyrirhafnarlítið, að sjóðurinn sendi stutta tilkynningu til þess valdsmanns, sem veðmálabækurnar færir, um lausafjárveðsetningu þessa og þessa skuldunauts, sem ég álít, að mætti innfæra í veðmálabækur, ef svo væri ákveðið, báðum að kostnaðarlausu.