05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

10. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Magnússon:

Það er misskilningur hjá hv. 1. landsk., að lánsstofnanir fylgist yfirleitt með flutningum skuldunauta sinna. Það er fyrst ef ekki er staðið í skilum, að lánsstofnanirnar komast eftir því, ef lántakandi hefir skipt um heimili; fyrr hafa þær ekkert tilefni til eftirgrennslana um það efni. Ef setja ætti inn í frv. ákvæði um það, að veð falli úr gildi, ef lántakandi flytur sig í aðra þinghá, nema því aðeins, að veðsetningin sé þinglesin að nýju, þá væri nauðsynlegt fyrir sjóðinn að hafa trúnaðarmann í hverri sveit og hverjum kaupstað, sem tilkynnti honum alla flutninga burtu þaðan og hvert væri flutt. Ég vil ekki halda því fram, að þetta sé ómögulegt. Sennilega væri hægt fyrstu árin að stilla svo til, að þetta væri gert.

En það er hætt við, að þegar fer að fyrnast yfir þessi mál, þá færi þetta að lenda í handaskolum og tilkynningarnar yrðu trassaðar, þegar frá líður. Ég get ekki sagt annað en mér finnst heldur óeðlilegt, eins og þessi löggjöf er úr garði gerð að öðru leyti, að sjóðurinn missi tryggingu sína fyrir það eitt, að veðskuldabréfin eru ekki þegar í stað þinglesin, ef skuldunautur flytur í aðra þinghá. Því það er vitanlegt, að þó ákvæði frv. standi óbreytt, þá mundu bréfin verða þinglesin í hinni nýju þinghá, þegar sjóðurinn fær vitneskju um flutning skuldunauts. Þetta ákvæði er sett til þess að girða fyrir, að sjóðurinn missi tryggingu, þótt skuldunautur flyti sig án þess að sjóðsstjórninni sé það kunnugt. „ — og heldur sjóðurinn þá veði sínu, þótt skuldabréfið sé eigi þinglesið á ný í þeirri þinghá, sem veðsali flutti í“, segir í frvgr. Það er ekki beinlínis sagt, að það eigi að þinglesa, ef sjóðurinn veit um flutninginn, en það er án efa ætlazt til þess. Það er einungis ætlunin að koma í veg fyrir, að sjóðurinn missi veð sitt af þeirri ástæðu einni, að hann veit ekki um flutning veðsala. Finnst mér, að hægt sé að sætta sig við það.