05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (607)

10. mál, Kreppulánasjóður

Jón Þorláksson:

Ég get á þessu stigi gert mig ánægðan með yfirlýsingu hv. 2. þm. Rang., sem er í stjórn Kreppulánasjóðsins, um að annazt muni verða um það eftir föngum, að lausafjárveð verði innfærð eða veðskuldabréf þinglesin í þeirri þinghá, sem skuldunautur flytur í. Það er þá tími til síðar, og verður það eflaust gott verkefni fyrir þá lögfræðinga, sem flytja mál fyrir dómstólunum, að athuga, hvernig svo á að fara að, þegar maður hefir veðsett t. d. eitthvert nýfengið lausafé og veðið hefir verið tekið í góðri trú og þinglesið í þeirri þinghá, sem lög mæla fyrir, og svo kemur upp á eftir árekstur milli Kreppulánasjóðs og hins veðhafans. Mér sýnist geta orðið alllaglegar málaflækjur úr því.