05.12.1933
Efri deild: 26. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

24. mál, Tunnuverksmiðja Akureyrar

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Þetta frv. er komið frá hv. Nd., og fer það fram á að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir samvinnufélagið „Tunnuverksmiðju Akureyrar“ allt að 70 þús. kr. rekstrarlán. Sjútvn. hefir athugað þetta mál, og fyrir n. lágu lög þessa félags og umsókn þess um ábyrgðarheimildina. Og eftir því, sem atvik liggja til, sér n. ekki ástæðu til annars en að mæla með því, að frv. verði samþ. Það er gert ráð fyrir, að þessi verksmiðja geti á þremur mán. afkastað smíði á 40 þús. tunnum, og eftir þeim skilríkjum, sem lágu fyrir n., er ekki gert ráð fyrir, að hún starfi nema að vetrinum til 3 til 4 mán. að þessari smíði. N. álítur, að þar sem miklar líkur eru til, að þessi tunnuframleiðsla verði ekki meiri en það, að hægt verði að selja hana alla á Akureyri og söltunarstöðvunum þar í kring, þá séu miklar líkur til, að fyrirtækið geti borið sig fjárhagslega. N. er ljóst, að ef framleiðsla verksmiðjunnar á að keppa við erlenda framleiðslu í þessari grein á fjarlægum stöðum, svo að flutningskostnaður leggist á tunnurnar, þá geti verið öðru máli að gegna um það, hvað félagið sé ágóðavænlegt. En af því að n. lítur svo á, að eins og sakir standa geti fyrirtækið staðizt fjárhagslega, og ekki síður af hinu, að í 1. gr. er það sett að skilyrði, að Akureyrarkaupstaður standi í ábyrgð gagnvart ríkinu fyrir þessari upphæð, þá telur hún hér um mjög litla áhættu að ræða fyrir ríkissjóð. Samskonar ábyrgð hefir Alþ. áður veitt samskonar fyrirtæki, tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, og n. telur, að eins og ástæður eru á Akureyri, þá sé varhugavert að neita um þessa ábyrgðarheimild, þar sem tryggingarnar virðast vera mjög sæmilegar og áhættan því lítil fyrir ríkissjóðinn. Leggur n. því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.