14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í B-deild Alþingistíðinda. (649)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bernharð Stefánsson:

Mér þykir það dálítið athugavert í þessu frv., að ekki skuli vera tekið fram, hvar verksmiðjuna á að reisa, m. a. vegna þess, að þingið veit þá betur, í hvað er ráðizt, ef staðurinn er ákveðinn. Það hefir komið skýrt fram í umr., að kostnaðurinn við að reisa verksmiðjuna fer mikið eftir því, hvort byggð er viðbót við síldarverksmiðjuna á Siglufirði, eða hvort ný og sérstök verksmiðja er reist. Finnst mér ákaflega eðlilegt, að Alþingi vilji sjálft ákveða þetta, til þess að vita, hvað mikla lántöku það heimilar með samþykkt þessara laga. Hvor leiðin, sem farin verður finnst mér því, að hún ætti að ákveðast í lögunum sjálfum, sem um þetta verða sett.

Hv. þm. G.-K. færði í fyrri hluta ræðu sinnar mikil og skýr rök fyrir því, að hina fyrirhuguðu síldarbræðslustöð ætti einmitt að reisa sem viðbót við síldarverksmiðjuna á Siglufirði. Þarf ég eigi að taka þau rök upp aftur. Hann gat um, að á Siglufirði væru fyrir hendi bryggjur og ýms önnur tæki, sem ekki þyrfti að bæta við, þó verksmiðjan væri stækkuð, stjórnarkostnaður yrði sá sami og nú o. s. frv. En það, sem hv. þm. svo í seinni hluta ræðu sinnar hafði á móti því, að aukið væri við verksmiðjuna á Siglufirði, var það, að kaupgjald væri hærra þar heldur en víðast hvar annarsstaðar á landinu og þar mætti alltaf búast við verkföllum og þessháttar.

Ég býst við, að það sé rétt út af fyrir sig, að kaupgjald sé nú hærra á Siglufirði en við Húnaflóa, en það má jafnframt gera ráð fyrir því sem sjálfsögðu, þegar þar væri komin síldarbræðslustöð með mörgu verkafólki, að munurinn yrði í framtíðinni ekki mikill, eða enginn. Ég er nú samt ekki á þessu stigi málsins að halda því fram, að reisa skuli stöðina á Siglufirði, en ég vil skora á n. að taka til nýrrar athugunar, hvort ekki ætti að vera beinlínis ákveðið um þetta í 1. Í grg. frv. stendur, að n. muni reyna að gera till. um það áður en þinginu lýkur, hvar stöðina eigi að reisa. Ef n. gerir slíkar till. til stj., þá sé ég ekki, að það sé vandameira fyrir n. að koma með slíka till. sem breyt. við frv., og ég álit það tryggara og Alþingi samboðnara að ganga þannig frá málinu heldur en að láta slíkt vera í höndum ríkisstj.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess við 1. umr. að fara frekar út í þetta, en ef n. lætur undir höfuð leggjast að flytja till. um staðinn, eða a. m. k. á hvern hátt eigi að ákveða hann, þá mun ég bera fram brtt. síðar við þetta frv. um það. hvar bræðslustöðin skuli vera.