14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bernharð Stefánsson:

Það er eins og vænta mátti, að hv. þm. A.-Húnv. vill fá þessa stöð byggða við Húnaflóa. Mér finnst þó, að hann ætti að vera mér sammála um það atriði, að réttara væri, að Alþingi setji ákvæði um það í 1., hvar staðurinn eigi að vera, og þá vitanlega heldur hv. þm. þessum stað fram. Hv. þm. taldi það mjög athugaverða stefnu að sameina atvinnufyrirtæki í stórum stíl á vissum stöðum á landinu, og að því er mér skildist taldi hann heppilegra að dreifa atvinnunni sem mest um landið. Ég skal játa, að það getur verið nokkuð til í þessu og geti haft sína galla að sameina mikinn atvinnurekstur á einum stað. En það er þó vanalega auðveldara að bæta við eitthvað heldur en að reisa frá nýju. Og ekki hefi ég trú á því, að togaraútgerðin gengi betur, þó henni væri hagað svo, að gerður væri út einn og einn togari frá hverjum verzlunarstað kringum landið. Ég held, að reynslan hafi sýnt það, að togaraútgerðin hefir einmitt tekið framförum vegna þess, að hún er allmikið sameinuð. — Mér þótti vænt um, að hv. þm. vék að einu atriði í sambandi við þetta mál, sem ég álít, að sé þess vert að undirstrika. Það kom fram hjá hv. þm., þó ekki beinlínis með ákveðnum orðum, að undirstaðan undir því, að hægt sé að reisa síldarbræðslustöð við Húnaflóa. er vitanlega sú, að þar verður að byggja höfn. Og þetta mun vera rétt hjá honum. Hafnarmannvirki er skilyrði til þess, að síldarbræðslustöð komi þarna að notum, og mér finnst, að Alþingi verði að gera sér þetta ljóst og verði að ganga svo frá þessu máli, að því sé ljóst, hvað það ætlar að gera. Ef það t. d. ætlast til, að stöðin verði reist á Skagaströnd, þá verður að gera sér það ljóst, að það kostar jafnframt höfn þar, m. ö. o. margfalt fé á við það að bæta við verksmiðjuna á Siglufirði.

Ég lít svo á þetta mál, að hér sé aðeins farið fram á að bæta úr brýnustu þörf og að það verði auðveldast gert með því að bæta við þá síldarbræðslustöð, sem fyrir er á Siglufirði. Hitt liggur vitanlega opið í framtíðinni, að gera þær framkvæmdir við Húnaflóa, sem þá þykir rétt, enda kom það skýrt fram hjá hv. þm. A.-Húnv., að hann gerði tæplega ráð fyrir, ef að því ráði væri horfið að reisa bræðslustöðina við Húnaflóa, að slíkt kæmi til framkvæmda á næsta sumri. En það er einmitt mjög brýn þörf á því, að þegar sé hafizt handa í þessu efni. Mér er vel kunnugt um það, að á síðastl. sumri varð stórtjón af því, að ekki var hægt að taka nægilega fljótt við þeirri síld, sem aflaðist til bræðslunnar. Skipin biðu eftir afgreiðslu, og eitthvað af síldinni varð jafnvel ónýtt fyrir þessa sök.

Ég tel það reyndar ekki tímabært að fara nú út í miklar deilur um það, hvar eigi að reisa stöðina; það á betur við seinni umr. málsins. En hitt vildi ég láta koma fram þegar við þessa umr., að ég álít, að ákvæði um þetta eigi nauðsynlega að komast inn í frv., og það vona ég, að n. taki til greina. Og eins og ég gat um áðan, þá skil ég ekki, að hún geti ekki gert það með ákvæði í frv. sjálfu.