14.11.1933
Neðri deild: 9. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að hafa önnur afskipti af því en að beina einni fyrirspurn til hv. n., sem flytur frv. Mér skildist, að hún byggist við því, að verksmiðjan gæti verið fullbúin og til taks þegar síldveiðin byrjar næsta sumar. Ég vildi gjarnan fá það upplýst frá n., á hverju hún byggir þessa skoðun sína, því að sjálfur tel ég útilokað, að þetta reynist mögulegt. Í því sambandi gæti ég minnzt á síldarverksmiðju ríkisins á Siglufirði. Það þætti ef til vill vel við eigandi, að ég gæfi hv. d. yfirlit um rekstur hennar í sumar. En ég held, að eins gott sé að geyma það, en gefa hv. n. kost á að kynna sér það.

Þá vil ég minna á það, að síldarverksmiðja dr. Pauls hefir verið keypt. Um leið og ég vænti svars við fyrirspurn minni, vil ég benda hv. frsm. á það, að það, sem hann sagði um skaða af því, að verksmiðjur hefðu ekki verið nógu margar til þess að vinna síldina og hún hefði þess vegna orðið of gömul og skemmzt, þá er það vafasöm skýring. Því að hv. frsm. tekur ekki tillit til þess, að sama mundi gilda, þó að verksm. hefðu verið þrjár. Það er náttúrlega ógerlegt að byggja svo mikið, að öruggt sé um það, að síldin verði öll unnin áður en hún skemmist, hversu mikið sem berst að í stærstu síldarhrotum.