18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég tel, að nú sé komið fram það, sem mig uggði við 1. umr., að ekki myndi vera hægt að koma byggingu verksmiðjunnar í verk áður en næsta síldveiðatímabil byrjar. Ég get nefnt, að landssímastjóri, sem er þessu máli vel kunnugur, telur með öllu útilokað, að verksmiðjan komist upp fyrir næsta síldveiðatímabil. Það má því telja fyllilega upplýst, að svo geti ekki orðið. En þá er líka efamál, hvort rétt er, að í frv. standi, að verksmiðjunni skuli komið upp á næsta ári. Það er alls ekki víst, að það sé praktiskt að ljúka byggingu hennar þá, ef hún kemur ekki til afnota fyrr en 1935. Ég held því, að rétt væri að breyta þessu, nema hv. sjútvn. vilji lýsa yfir því, að átt sé við það, að verkið verði hafið á næsta ári, án þess að nauðsynlegt sé að ljúka því fyrr en 1935. Þá vil ég benda á 2 orð í skrifl. brtt., sem sé orðin „nú þegar“, þar sem gert er ráð fyrir því, að auglýst sé eftir áliti útgerðarmanna. Ég veit ekki, hvort n. ætlast til, að auglýst sé fyrr en 1. eru staðfest, eða að það sé gert þegar í stað. (ÓTh: Þessi fyrirmæli fá ekki gildi fyrr en 1. eru staðfest). Ef þau ber að skilja svo, þá er ekkert við þau að athuga. En viðvíkjandi því atriðinu, er ég nefndi fyrr, þá vil ég spyrja hv. n., hvort ekki megi skilja það svo, að ekki sé bein fyrirskipun um það, að byggingu verksmiðjunnar verði lokið á næsta ári. Fyrir ríkissjóð getur það verið hagfelldara, að eigi sé lokið við verkið fyrr en á öndverðu ári 1935, ef annars fæst lán til að framkvæma verkið.