18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. A.-Húnv. mótmælti þeim skilningi sjútvn., að það beri að telja Strandir með Norðurlandi; og hv. 1. þm. Reykv. tók í sama strenginn. Þess vegna sé ég ástæðu til þess sem form. n. að taka það skýrt fram, að í allri meðferð málsins hefir sjútvn. talað um, að allar hafnir beggja megin við Húnaflóa gætu komið til athugunar, þegar ákveðinn yrði staður fyrir verksmiðjuna. N. var svo ákveðin í því að leggja þennan skilning í orðalag till., að ef hún sæi nokkra hættu á því, að þetta yrði ekki framkvæmt þannig, og ef stj. tæki ekki fullt tillit til till. útgerðarmanna, nema þær beindust eingöngu að hafnarstað í Norðlendingafjórðungi, þá var n. ráðin í að breyta orðalagi till. þannig, að Vestfirðir yrðu teknir með. Hv. frsm. tók það beinlínis fram í sinni síðustu ræðu, að stj. ætti að velja þann stað fyrir verksmiðjuna, sem meiri hl. útgerðarmanna teldi heppilegastan; stj. ætti því bara að vinna úr till. þeirra. Ég álít, að stj. eigi að byggja ákvörðun sína á nákvæmum athugunum og samanburði á hinum ýmsu stöðum, án þess að líta á það eitt, hvort 10 útgerðarmenn mæla með einum stað, en aðeins 5 með hinum t. d. Með þannig lagaðri afgreiðslu á málinu verður helzt reynt að komast hjá hreppapólitík. Annars var það hv. þm. Str., sem leiddi hana inn í þessar umr. með fyrirspurn til sjútvn. um hina landfræðilegu athugun á því, hvar Strandir væru taldar samkv. þessari till. Hann er nú búinn að fá svar við því. En ef það verður misskilið, þá er réttara að ákveða nánar takmörk Norðurlands og binda heimildina þá við svæðið frá Langanesi að Horni.

Þá var það hv. þm. A.-Húnv., sem fór að tala um Skagaströnd í sambandi við þetta mál. En hafnargerð á Skagaströnd lá hér alls ekki fyrir; það var eingöngu verið að tala um, hvernig bezt yrði bætt úr bráðri þörf fyrir síldarbræðsluverksmiðju á Norðurlandi. Hafnarmálið á Skagaströnd kemur því í raun og veru ekkert við. Nauðsyn síldarbræðsluverksmiðjunnar er svo brýn, að það má ekki binda afgreiðslu þess máls við Skagastrandarmálið, sem er svo vafasamt, hvenær verði leyst. Sjútvn. áleit heppilegast að afgr. síldarverksmiðjumálið þannig, að hún bindi sig ekki við neinn ákveðinn stað fyrir verksmiðjuna, og með því vildi hún sýna óhlutdrægni. En af ýmsum einstökum þdm. er gengið svo langt í því efni, að hv. 2. þm. Skagf. er farinn að benda á Sauðárkrók eða Hofsós. Ég get þá engu síður búizt við, að hv. þm. S.-Þ. risi úr sæti sínu og fari að mæla með Húsavík, sem að sjálfsögðu hefir eins stórt uppland. (HG: Hvernig er Patreksfjörður?). Hann er náttúrlega ágætur og mætti einnig koma til greina. En sjútvn. hefir viljað forðast alla hreppapólitík í þessu máli og ekki viljað ákveða um staðinn, heldur að leitað yrði fyrst ýtarlegra upplýsinga og stj. falið að vinna úr till. útgerðarmanna, sem hafa mesta reynslu í þessum efnum, og velja staðinn samkv. niðurstöðu þeirra.

Hv. 1. þm. Reykv. réðst að hv. þm. Str. og kvaðst sakna þess mjög, að hann sem bændafulltrúi skyldi ekki vilja reisa verksmiðjuna þar, sem landbúnaðurinn hefði hennar mest not. En ég vil nú segja það, að ég saknaði þess ekkert. Þó að það gæti auðvitað verið gott, að verksmiðjan hafi góð sambönd við landbúnaðarhéruð, þá er það vitanlegt, að ef bændur yrðu spurðir ráða um það, hvar verksmiðjan ætti að vera, þá vildu allir hafa hana í sínu héraði. Skagfirðingar mundu benda á Sauðárkrók, Húnvetningar á Skagaströnd, Strandamenn á ýmsa staði á Ströndum o. s. frv., enda veit ég ekki betur en að í Strandasýslu sé framleitt nægilega mikið af landbúnaðarafurðum til þess að fullnægja eftirspurn þeirra manna, sem vinna við eina síldarverksmiðju og á þeim veiðiskipum, sem leggja þar upp aflann. En það verður að velja síldarverksmiðjunni stað með fullu tilliti til hagsmuna útgerðarinnar sjálfrar, og ekki hagsmuna einstakra landbúnaðarhéraða.