18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Ingólfur Bjarnarson:

Ég hefi nú um stund hlustað á þessar miklu kappræður ýmsra hv. þm. um það, hvar hinni fyrirhuguðu síldarverksmiðju yrði haganlegast fyrir komið. Og ég get ekki annað en undrast það, að sá staður hefir ekki verið nefndur, sem að mínum dómi er álitlegastur og sjálfsagðastur, en það er Húsavík. Hv. þm. Barð. taldi að vísu líklegt, að ég mundi benda á þann stað. Og úr því að svo margir staðir hafa nú verið til nefndir, þá get ég varla setið hjá umr. lengur án þess að benda hv. þd. á, að þarna er mjög heppilegur staður, sem hefir alla þá kosti og þau skilyrði, er nauðsynleg eru til verksmiðjurekstrar, nema höfnina. En eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er nú verið að bæta höfnina á Húsavík og byggja þar hafskipabryggju, sem er komin nokkuð á leið. Samkv. upplýsingum, sem ég hefi nýlega fengið frá oddvita sýslunefndar S.-Þ., liggur það ljóst fyrir, að eftir næsta sumar verður bryggjubyggingunni svo langt komið, að þá verður orðin sæmileg aðstaða þar á höfninni fyrir síldveiðaskip. Ég get ekki lagt fram full skilríki fyrir þessu nú þegar, en það munu vera á leiðinni í pósti skjöl, sem gefa fullkomnar bendingar um, að þessu verki verði svo langt komið á næsta sumri, að síldveiðiskip hafi þá góða aðstöðu til að leggja þar upp afla sinn.

Húsavík er einmitt sérstaklega álitlegur staður fyrir síldarbræðslustöð og heppilegur fyrir margra hluta sakir. Má í því efni fyrst og fremst benda á legu staðarins, bæði að því er snertir sambönd við víðáttumiklar landkostasveitir í héraðinu, og ekki sízt gagnvart síldarmiðunum. Það er ótvírætt, að frá Húsavík er mjög hentugt að stunda síldveiðar. Vil ég í því efni skírskota til ræðu, sem hv. fyrrv. þm. N.-Ísf. flutti á síðasta þingi, þar sem hann taldi, að Húsavík væri ákjósanlegasta síldarútvegsstöð næst Siglufirði. Á þetta vildi ég benda. Hinsvegar skal ég játa, að ég tel allar þessar ræður, sem fluttar hafa verið um málið, fremur lítils virði. En þar sem ætlazt er til, að síldarútvegsmenn sendi till. sínar til stj. og kveði svo að segja upp úrslitadóm um það, hvar verksmiðjan á að standa, þá vænti ég, að sá dómstóll útgerðarmanna falli Húsavík í vil, og treysti því, að sá ágæti staður verði tilnefndur. En stj. á að fara eftir úrskurði útgerðarmanna í því efni.