18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Tryggvi Þórhallsson:

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann gat þess, að ég hefði út af lífinu viljað setja þessa síldarbræðsluverksmiðju á Norður-Strandir. Þetta er mesti misskilningur. Ég tók einungis þátt í þessum umr. til þess að fá útskýringu á orðalagi frv. Nú eru komnar fram yfirlýsingar bæði frá meiri hl. n. og hæstv. ráðh., þess efnis, að þarna sé einnig átt við Strandir. Ég geri mig ánægðan með það. Ég hefi alls ekki krafizt þess, að verksmiðjan verði sett þarna niður, heldur aðeins farið fram á það, að þessir staðir kæmu einnig til athugunar við rannsókn ríkisstj., og bent á kosti þeirra.