18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (686)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Pálmason:

Hv. frsm. tók það fram, að ekki kæmi til mála að setja verksmiðjuna niður á Skagaströnd, nema hafnarmannvirki þar væru fullgerð. Þessi mannvirki eru bráðnauðsynleg. Og ég sé enga ástæðu til þess að setja ekki verksmiðjuna á bezta staðinn, þótt það kosti það, að lokið sé við hafnarmannvirki, sem hvort sem er þarf að ljúka við á næstunni. — Þá hafa nokkrir hv. þm. haldið því fram, að þar sem frv. þetta talaði um Norðurland, þá ætti það líka við Strandir. Það er auðvitað hægt að segja, að með orðum frv. sé meint eitthvað allt annað en þar stendur. Með Norðurlandi er í okkar máli aðeins átt við Norðlendingafjórðung. Hv. þm. og hæstv. ráðh. geta gjarnan sagt það fyrir mér, að t. d. Hesteyri sé á Norðurlandi, en það rekur sig algerlega á allar íslenzkar málvenjur. — Hv. þm. Barð. sagði, að þetta mál kæmi ekkert Skagastrandarmálinu við. Ég vil mótmæla þessu eindregið, þar sem öllum ætti að vera ljóst, að ákjósanlegri staður fyrir verksmiðjuna er vandfundinn. — Ég skal þá ekki hafa þessi orð mín fleiri, og þar eð mér skildist á hv. sjútvn., að hún vildi flýta þessu máli, skal ég ekki gera till. mína um frestun umr. að neinu kappsmáli.