18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Bernharð Stefánsson:

Það er sannarlega gleðilegt, að hv. 1. þm. Reykv. skuli vera orðinn svona mikill bændavinur. Ég vil halda því fram, að það séu engir hagsmunir bænda fyrir borð bornir, þótt hagsmunir útvegsins séu látnir ráða í þessu máli. Hvort sem verksmiðjan verður reist á þessum staðnum eða hinum af þeim, sem nefndir hafa verið, þá hafa bændur sömu hagsmuni af því að selja verkamönnum afurðir sínar. Spurningin er sú, hvort það eigi að vera skagfirzkir, húnvetnskir, eyfirzkir eða þingeyskir bændur, sem hagnaðarins njóta. Ég vil endurtaka það, að það eru fyrst og fremst hagsmunir atvinnuvegarins sjálfs, sem eiga að ráða stað verksmiðjunnar, en ekki togstreita um hagnað bænda í hinum einstöku sýslum í sambandi við rekstur hennar.