18.11.1933
Neðri deild: 13. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (694)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jóhann Jósefsson:

Ég finn sérstaka ástæðu til þess að lýsa því yfir f. h. sjútvn., að hún ætlaðist ekki til með þessu orðalagi að útiloka hafnir vestanmegin Húnaflóa. Getur því n. vafalaust fallizt á orðabreyt. í frv. til þess að taka af öll tvímæli, svo að stj. geti fallizt á að setja síldarbræðsluna þar, ef það skyldi koma í ljós, að þar væru heppilegir staðir.

Ég vil vekja athygli hæstv. stj. á því, að meiningin með þessu frv. var einungis sú, að bæta úr þeirri miklu þörf, sem fyrir hendi er, og auka möguleikana á sölu síldar fyrir síldveiðiskipin. Við höfum séð það í sumar, að vísa varð frá mörgum skipum á Siglufirði, vegna þess að þar barst svo mikil síld á land. Þessu er því nauðsynlegt að kippa í lag með því að reisa einhversstaðar á þessu svæði nýja bræðslustöð.

Eftir að hafa heyrt þær umr., sem hér hafa fram farið og allar hafa snúizt um hreppapólitík hv. þdm., er ég enn sannfærðari en áður um það, að rétt væri að fallast á till. hv. þm. Borgf. um að skjóta því til útgerðarmanna sjálfra, hvar reisa skuli stöðina. Ég er sjálfur ekki í nokkrum vafa um það, hvernig sú atkvgr. muni fara, og byggi ég það á viðtali mínu við útgerðarmenn um þessi mál. En þá er mér líka enn annara um, að ekki verði orðaleikir til þess að hindra, að hægt sé að velja beztu og hagkvæmustu höfnina, hvort sem hún liggur austan eða vestanmegin Húnaflóa.

Það er eindregin ósk allra í sjútvn., að hæstv. stj. vinni að framgangi þessa máls með þeim hraða, sem mögulegur er. Það er hinsvegar ekki hægt að gera kröfur til þess, að verksmiðjunni verði komið upp fyrir næstu vertíð, en aftur á móti fyrir vertíðina 1935.

Vænti ég þess, að sá andi, sem hér hefir gert vart við sig og birzt hefir í togstreitu um staðinn, verði ekki látinn hindra framkvæmdir, heldur verði farið eftir tillögum þeirra manna, sem mesta hafa reynsluna og mest eiga í húfi, þegar að því kemur, að staðurinn verður ákveðinn.

Ég mun leyfa mér að bera fram skriflega brtt. við frv., til þess að útiloka allan misskilning.