22.11.1933
Efri deild: 16. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Kári Sigurjónsson:

Ég hefði ekki búizt við, að hér í þessari hv. d. yrði rætt mikið um ákveðna staði í sambandi við þessa fyrirhuguðu síldarbræðslustöð. Málinu hefir verið komið á þann réttláta grundvöll, að leitað skuli álits þeirra manna um það, sem bezt hafa vit á sjávarútvegi. En þegar á annað borð er rætt um ákveðna staði í þessu sambandi, þá virðist mér, að sá staður, sem fyrst skyldi nefndur, sé Húsavík. Ég segi þetta ekki af því, að ég er búsettur þar, heldur af því, að síldveiði er mjög mikil einmitt fyrir miðju Norðurlandinu, og það er mikið álitamál, hvort meiri hluti síldarinnar sé sóttur á Húnaflóa. Frá Tjörnesi, þar sem ég á heima, sjást oft allt að hundrað skip jafnvel vikurnar út. (JónJ: Þau sjást líka mjög mörg á Húnaflóa). Og ef síldveiðaflotinn er ekki meiri en 140 til 150 skip, þá er stundum meiri hl. hans innan þessa sjóndeildarhrings.

Frá 20. júlí og fram í miðjan ágúst er venjulega skipamergð á þessum slóðum. Það hefir verið talað um hafnargerð á Húsavík og stofnun síldarbræðsluverksmiðju í sambandi við góð hafnarstæði, og hv. þm. N.-Þ. hefir tekið það fram, að það sé hægara um vik að tryggja sér góða höfn á Raufarhöfn en víða annarsstaðar og að ekki þurfi nema að dýpka höfnina. Það talar hver frá sínu sjónarmiði um þetta, og vil ég ekki fara í neinn meting um það, en treysti því, að þeir, sem fá till. til meðferðar, gleymi ekki að taka alla þá staði til athugunar, sem til greina geta komið.

Það er eitt atriði enn, sem verður að taka til greina í sambandi við byggingu síldarbræðsluverksmiðju, en það er að setja hana ekki þar niður, sem lítið er af ræktanlegu landi í kring. Því sé það gert, myndast þar þorp, sem byggir alla sína atvinnuvon á þeim stutta tíma, sem síldveiðarnar standa yfir, og er dæmt til þeirra ömurlegu örlaga, að þar verður aðgerðarleysi alla aðra tíma ársins.

Það þarf að taka tillit til þess, að svo hagi til þar, sem síldarbræðsluverksmiðjan verður reist, að menn geti jafnframt stundað sveitabúskap að einhverju leyti, svo að fólkið, sem myndi streyma á þennan stað, hefði eitthvað annað við að vera en þá atvinnu eina, sem fæst þennan stutta tíma, sem síldin veiðist.

Annars er ég ánægður með þá meðferð á málinu í Nd., að sá staður sé valinn, sem talinn er heppilegastur af þeim, sem dómbærastir eru um þessa hluti.