04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (711)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Kári Sigurjónsson:

Mér virðist þetta mál vera að breyta allmjög um stefnu. Eins og frv. kom frá Nd. var aðeins gert ráð fyrir, að ríkið reisti eina verksmiðju til viðbótar á Norðurlandi, og virtist eiga að leggja undir nánari rannsókn, hvar hún skyldi reist, og leita þar um umsagnar þeirra, sem bezt þekkja þarfir sjávarútvegsins. En nú er borinn fram hver viðaukinn við frv. eftir annan. Það á að veita 100 þús. kr. til verksmiðju á Seyðisfirði, og nú fer hv. þm. N.-Þ. fram á, að keypt verði verksmiðjan á Raufarhöfn. Málið er því að verða allt annað heldur en það var, þegar það kom fyrst til þessarar hv. d. Ég tel mig óviðbúinn að greiða niðurstöðu málsins atkv. á þessu stigi, þótt ég óski, að það gangi til 3. umr.

Það kom fram í ræðu hv. þm. N.-Þ., sem ég líka bjóst við, að svo getur farið þar, sem síldarverksmiðjur eru reistar og ekki tengdar öðrum atvinnurekstri, að fólk safnast saman fyrirhyggjulítið og verði svo örþrota, ef síldveiðin bregzt eða verksmiðjan af einhverjum ástæðum hættir. Það virðist allviðurhlutamikið, ef ríkið stofnaði til þess að safna fólki saman á einn stað utan um verksmiðju, þar sem ekkert annað er að gera en við síldina. Hv. þm. N.-Þ. virðist líta svo á, að þessir menn á Raufarhöfn hafi engan annan atvinnuveg að snúa sér að, þegar síldarverksmiðjan bregzt í sambandi við skort á hráefni. Slíkt er allmikið vandamál. Það munu hafa komið fram bæði í hv. Nd. og hér allólíkar skoðanir um það, hvort hin fyrirhugaða verksmiðja ætti að nokkru leyti að vera miðuð við annan atvinnurekstur, og af því hefir m. a. komið fram metingur um hafnir beggja vegna Húnaflóa. Ég tel mjög óheppilegt að stofna verksmiðju fyrir fé ríkisins á stöðum, þar sem afkoma manna mundi verða einvörðungu við þann atvinnurekstur bundin. Ég vil eindregið óska þess, að þeim, sem með þessi mál fara, auðnist að setja verksmiðjuna þar á laggirnar, sem rekstur hennar getur verið tengdur afkomu og starfsemi landbúnaðarins.

Það hefir verið talað um, að þarna á Raufarhöfn væri verksmiðja, sem hentugt væri fyrir ríkið að kaupa og hagkvæmir samningar mundu nást um og því um líkt. En ég efast um, að athugað hafi verið, hvort innsiglingin á þessa höfn sé nægilega góð til þess að hafa slíkt fyrirtæki þar til frambúðar. Svo vaxa mér í augum þau fjárútlát ríkissjóðs, sem hér er farið fram á til viðbótar því, sem frv. gerði upphaflega ráð fyrir. Get ég því ekki tekið endanlega afstöðu til málsins að svo stöddu.