04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (712)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég verð að segja, að mér þykja nú fara að tíðkast hin breiðu spjótin í síldarmálunum, því nú er aðeins eftir ein síldarverksmiðja á landinu, Hesteyrarverksmiðjan, sem ríkið á ekki að eignast, og svo á þar að auki að leggja fram til nýrra bræðslustöðva svo hundruðum þúsunda og millj. króna skiptir. Mér finnst þetta vera að fara út í öfgar, og ég vil einungis benda á, að það er ekki við því að búast, að ríkissjóður hafi fé aflögu til þessara framlaga á árinu 1934. Það er gott, ef hann getur annað þeim greiðslum, sem fjárlög leggja á hann, og engar líkur til, að þar verði neitt umfram. Nú er búizt við, að þessi verksmiðja á Norðurlandi kosti um eina millj. kr. Svo er talað um að veita 100 þús. kr. til verksmiðju á Seyðisfirði, og fyrir þeim skilst mér ekki vera nein lántökuheimild. En þó svo væri, þá verð ég að segja, að mér er farið að ofbjóða allar þessar lántökur og held, að betra sé að fara að athuga, hvort ekki verður að snúa við á þeirri braut.

Um verksmiðjuna á Raufarhöfn skal ég segja það, að ég býst við, að hún kosti tiltölulega lítið. (BKr: Hún er föl fyrir mjög lágt verð). Ég veit ekki, hvað hv. þm. kallar lágt verð. (BKr: Ef hún fengist fyrir 20 til 30 þús.). Hún mun hafa verið boðin fyrir 45 þús. kr. norskar, og ég veit, að hún mundi fást fyrir talsvert minna. En ég veit líka, að ef ríkissjóður kaupir verksmiðjuna og ætlar að reka hana, þá þarf að gera við hana fyrir stórfé, líklega einar 60 þús. kr., og ég vona, að allir hljóti að sjá, að það er of mikið að leggja í allt þetta á einu ári. Ég hefði haldið, að það væri nóg að hugsa sér að byggja eina verksmiðju á árinu, sem á að kosta um millj. króna. Það er eins og menn kunni sér ekkert hóf í þessu efni. Ég verð að segja eins og það er, að það er ekki til neins fyrir þingið að ætlast til, að ríkissjóður borgi meira heldur en fyrir liggur eftir fjárlögum, nema séð sé fyrir nýjum tekjuaukalögum. Það er ekki til neins að heimta af stj., að hún láti gera þetta og þetta, þegar fyrirsjáanlegt er, að engir peningar verða til þess.