04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Jón Baldvinsson:

Það voru nokkur orð, sem féllu hjá hv. 2. þm. Rang., sem ég vil ekki láta standa óhögguð. Hann hóf mál sitt á því að ræða um síldareinkasöluna og vildi halda því fram, að hún hefði lagt síldarútveginn í rústir. Þetta eru ekki réttmæt ummæli. Að vísu verður því ekki neitað, að mjög mörg og mikil mistök urðu í stjórn einkasölunnar. M. a. má nefna, að framkvæmdarstjórn hennar lét viðgangast, að tekin væri til söltunar miklu meiri síld en nokkrir möguleikar voru til, að hún gæti selt. Þetta bakaði auðvitað ríkinu mikið tjón. En ef þetta verður borið saman við tap það, sem hefir orðið á saltfisksölunni á sama tíma, þá mun það reynast, að tapið þar hefir ekki verið orðið minna, þó að það skelli ekki beinlínis á ríkissjóðinn. Það er líka röng skoðun með öllu, sem hv. þm. hélt fram, að einkasalan hafi eyðilagt síldarmarkaðinn, því að þó að mistök hafi orðið um framkvæmdir hjá síldareinkasölunni, þá held ég, að síldareinkasala hafi einmitt lagt grundvöllinn undir aukna sölu síldar í Mið-Evrópu, með því að hefja þar sölu á linsaltaðri síld. Og það, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að einn maður hefði án allrar aðstoðar afrekað þetta, er ekki allskostar rétt. Ef ég hefi í huga sama mann og hv. 2. þm. Rang., þá er það áreiðanlegt, að sá maður hefir gert þetta einmitt að undirlagi og með aðstoð síldareinkasölunnar. Á þessum markaði var fyrir skæður keppinautur, enska síldin, sem var komin til löngu áður og búin að vinna markaðinn, en okkar síld, verkuð á svipaðan hátt og enska síldin, hefir reynzt vel. Það er náttúrlega alveg rétt, sem hv. 2. þm. Rang. segir, að aflaleysisár geti orðið útveginum til stórtjóns. En þess er að gæta, að fæst árin hefir síldin brugðizt við Norðurland. Það er raunar ekki vísindalega staðfest, en þó á nokkrum rannsóknum byggt, að síldargangan fer með Norðurlandi öll árin þegar hún kemur til landsins, þó að það geti auðvitað verið nokkuð misjafnt, þá má segja, að um nokkra hættu sé að ræða; en þjóðin verður að stunda þessa atvinnugrein eins og aðrar, þrátt fyrir þessa hættu. Enda held ég, að bændunum í Rangárvallasýslu detti ekki í hug að hætta búskap, þó að þeir eigi það alltaf á hættu, að illt verði í ári og grasleysisár komi við og við. Áhættan er því ekki meiri að því er síldina snertir. Hitt má telja líklegra, að Austfjarðasíldin sé stopulli, og komi eða hverfi á víxl á nokkuð löngu tímabili, en athugandi er, að síldargangan fyrir Norðurlandi nær allt austur að Langanesi, en þaðan er skammt til Seyðisfjarðar, og því er ekki ástæða til að óttast það, að ekki fáist næg síld í síldarbræðslu á Seyðisfirði. Af öllu þessu fæ ég ekki séð, að ástæða sé til að hræðast þetta framlag til eflingar síldarútveginum, þegar bæði eru til skip og fólk, og enn sem komið er hafa ekki verið teljandi vandræði með að selja afurðirnar. Hinsvegar er það rétt hjá hv. 2. þm. Rang., að það er æskilegt, að meira sé saltað af síldinni, því að þannig verkuð er hún í miklu hærra verði, og það er svo, að allir kappkosta að salta nokkuð af síldarafla sínum, þó ekki sé nema nokkur hundruð tunnur, til þess að reyna að bæta það upp, hvað bræðslusíldin er í lágu verði. En þó að það sýni sig, að hægt sé að auka markað fyrir saltsíld, þá er sjálfsagt að auka líka bræðsluna. Á stærri skipunum er um svo stórfellda veiði að ræða, að aðeins lítill hluti síldarinnar er hæfur til söltunar.