04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Frsm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Ég vil fyrst svara hæstv. dómsmrh. fáeinum orðum, og byrja á því að vekja athygli hans á því, að á síðasta þingi var hann líka töluvert svartsýnn á, að það væri rétt og ríkissjóði heppilegt, að keypt yrði síldarbræðsluverksmiðjan til viðbótar á Siglufirði. En það var einmitt þessum kaupum að þakka, að hagnaður varð af rekstrinum á Siglufirði á síðasta ári. Þó að sumir líti svart á þessi mál og segi, að ríkissjóður þoli ekki, að út í þessi stórræði sé lagt, þá vil ég spyrja: Hvar værum við nú staddir, ef við hefðum ekki einmitt lagt út í þessi stórræði?

Þá minntist hæstv. dómsmrh. á það atriði, hvort það væri meining n., að framkvæmd þeirra brtt., sem fyrir liggja, ef samþ. verða, eigi að sitja á hakanum. Ég tel, að ef brtt. ná samþykki og verða felldar inn í frv., þá eigi þær jafnan rétt til framkvæmda eins og sú framkvæmd, sem ráðgerð er með frv. eins og það er nú. Annars hygg ég, að sú upphæð, sem til er tekin í frv., muni nægja til að koma því í framkvæmd, sem samþ. verður. Enda vona ég, að hæstv. stj. hagi svo framkvæmdum, að ein millj. dugi, og láti sér þau víti til varnaðar verða, sem á daginn komu, er síldarbræðsluverksmiðja ríkisins var reist. Ég tel líka víst, að verk við síldarbræðsluverksmiðju á Norðurlandi verði boðið út. Sér þá hæstv. stj. nokkuð fljótlega í hendi sér, hve mikið fé muni til þess ganga og hve mikill hluti verða afgangs.

Ég skal þá víkja fáum orðum að hv. 2. þm. Rang. Hann taldi ekki víst, að hér væri úr brýnni þörf að bæta. Um þetta má máske deila. En ég ásamt öðrum þeim, sem mælt hafa með þessu, álít einmitt slíka þörf fyrir hendi. Trygging fyrir framleiðslu síldarmjöls og lýsis er nauðsynleg. Sú vara er ekki nærri því eins háð duttlungum markaðsins eins og saltsíldin. Eftirspurnin eftir þessum vörur hefir aukizt á síðari árum. Það eru því engin undur, þó að kapp sé lagt á starfsemi síldarbræðsluverksmiðja. Þótt vitanlega beri að leggja kapp á að auka markað saltsíldar, þá er þó bræðslan nauðsynlegur undirstöðuliður fyrir því, að þessi útgerð geti þrifizt. Og þegar þess er gætt, hversu smábáta- og línuskipaútgerðinni er þetta nauðsynlegt atriði, og jafnframt á það litið, hve mjög afkoma þjóðarinnar byggist á þeim sama útvegi, þá er ekki að undra, þótt menn vilji nokkru til þess kosta og hafi áhuga fyrir því, að þessi atvinnuvegur sé sem bezt tryggður.