04.12.1933
Efri deild: 25. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

20. mál, síldarbræðsluverksmiðja á Norðurlandi

Magnús Jónsson:

Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess, að hv. frsm. hafði talað þrisvar, en andmæli höfðu komið fram. En nú hefir hv. frsm. fengið aths. og svarað þeim mótmælum, sem fram höfðu komið. En fyrst ég stóð upp, þá vil ég segja, að mér kemur það alls ekki á óvart, þó viðvörunarraddir komi fram í þessu máli, einkum þar sem svo margar till. eru komnar fram. Og ég fyrir mitt leyti hefði óskað eftir því, að þær hefðu komið hægar fram en raun er á. Það er nú svo með okkar atvinnuvegi, að þeir hafa átt sín gelgjuskeið. Breytingarnar hafa gerzt skyndilega og ofvöxtur hlaupið í allt. Má sem dæmi nefna togarana, svo mótorbátana og nú síðast trillubátana. Ef einhver tegund útgerðar gengur vel eitt sumar, þá er hlaupið í að auka hana eftir því sem getan frekast leyfir. Nú hefir síldarbræðslan gengið vel eitt eða tvö ár, og nú vilja allir hlaupa upp til handa og fóta og láta ríkið setja upp og eignast á annan hátt sem allra flestar síldarbræðsluverksmiðjur. Það er því ekki ástæðulaust, þó raddir heyrist um, að fara beri varlega í þessu. Slíkar raddir hafa heyrzt nú frá hæstv. dómsmrh. og hv. 2. þm. Rang. En andmæli þeirra eru þó byggð á nokkrum ýkjum. Þeir hafa talað eins og allar þær till., sem fyrir liggja í þessa átt, væru samþ. En svo er eigi. Enn er ekki samþ. nema lítil till. um síldarbræðsluverksmiðju á Norðfirði. Auk þess hefir Nd. fallizt á stofnun síldarbræðsluverksmiðju á Norðurlandi og sjútvn. þessarar deildar mælt með frv. Þá hefir og sama n. mælt með því, að ríkisstj. verði gefin heimild til að leggja fram 100 þús. kr. til hlutabréfakaupa í h/f Síldarbræðslunni á Seyðisfirði. Ég verð nú að segja það, að ég er nokkuð efablandinn um að mæla með þessu hvorutveggja, ekki vegna þess, að ég efist um þörfina, heldur fyrir það, að ég hefði kosið, að þetta færi hægara af stað, kæmi ekki allt í einu. En þótt þetta yrði samþ., þá er ekki þar með sagt, að till. um kaup á verksmiðjunum á Raufarhöfn og Önundarfirði verði samþ. A. m. k. vil ég ekki samþ. fleiri að svo komnu. Á þessum málum, eins og svo mörgum öðrum, eru tvær hliðar. Önnur er sú, að fara beri varlega, sjá fótum sínum forráð. Hin hliðin snýr að hinni brýnu þörf, sem ekki er hægt að mæla á móti, að flotinn okkar hefir fyrir það að nota sér hinn mikla uppgripaafla, sem oft er á þessari fiskitegund, og fleyta sér þar með yfir hinn dauða punkt ársins, sumarið. Þess vegna er erfitt að standa gegn þessu, þótt maður hinsvegar vilji fara sem varlegast.

Ég mun í þessu sambandi ekki fara að ræða um síldareinkasöluna. Það mál er alveg óskylt þessu. Og skoðun mín á því máli er svo þekkt, að ég þarf ekki að lýsa henni nú.

Að síldveiðin geti brugðizt við Norðurland, síldin hætti að ganga þangað, er vitanlega hægt að orða. En allar fiskigöngur geta brugðizt. Ég skal t. d. minna á aflaleysið, sem gekk hér með Suðurnesjum fyrir löngu nokkuð og gerði útvegsbændur þar, sem þó voru orðnir fésterkir af útgerð sinni, fátæka menn. Þetta og því um líkt eiga allir atvinnuvegir við að stríða. En ég hygg, að síldveiðin fyrir Norðurlandi sé eins örugg og títt er um aðrar fiskigöngur. Ég er sammála hv. 2. þm. Rang. um það, að sem mest beri að dreifa áhættunni af þessum atvinnurekstri. En það er nú svo, að það er ekki einhlítt, þó við höfum von um að geta selt eitthvað á markað 80 millj. manna, þá þarf þó fyrst að kenna þeim að borða síldina. Og það er enn ekki nóg, því í vegi fyrir sölunni standa bæði innflutningshöft og verndartollar. Á síldarsöltunina er því ekki að byggja, nema sem uppbót, sem gott er að taka. Vinnslan úr síldinni verður öruggari. Þar er að vísu um minni uppgrip að ræða, en sá markaður er þó rólegri og öruggari. Hitt er vitanlega sjálfsagður hlutur, að halda sem bezt síldarmarkaðinum.

Ég vil geta þess, að ég tel alveg einsætt, að þessi till. verði notuð til að auka við verksmiðjuna á Siglufirði. Um þetta er að vísu allmikið skæklatog og meiningamunur. En ef litið er til hagsmuna þjóðarheildarinnar og þess, hvað atvinnuveginum er fyrir beztu, þá verður Siglufjörður fyrir valinu. Og m. a. er það af þeirri einföldu ástæðu, að langsamlega ódýrast verður að reisa hana þar. — Það hefir verið færð fram sú ástæða gegn Siglufirði, að vinnulaun yrðu hærri þar en annarsstaðar. En ég trúi nú satt að segja ekki þeirri röksemd. Hvar sem verksmiðjan verður, þá safnast þar saman verkafólk, og kröfur um fyllsta kaupgjald mundu fljótlega koma fram. Ég vil því eindregið leggja það til, að þessi verksmiðja verði byggð á Siglufirði og sú góða aðstaða notuð, sem þar er fyrir hendi, auk þess sem tryggasta síldveiðisvæðið er í umhverfi Siglufjarðar. Ég fyrir mitt leyti óska eindregið eftir því, að þessi iðnaður geti sem mest aukizt með framtaki einstaklinga, jafnvel þótt ríkið yrði að taka á sig einhverjar ábyrgðir þess vegna. Og þar sem hér er um heimild að ræða, þá vil ég æskja þess, að stj. taki til rækilegrar athugunar, hvort ekki er á uppsiglingu eitthvert fyrirtæki, sem fært væri um að setja á stofn síldarbræðsluverksmiðju. Ég hefi jafnvel heyrt, að hafinn væri undirbúningur undir öfluga félagsstofnun í þessu skyni á Norðurlandi. Og reynist það rétt, þá tel ég, að stj. ætti að draga að sér hendur um framkvæmdir á þessu. Því þótt ég fylgi þessu nú, þá er það eigi vegna löngunar í ríkisrekstur, heldur vegna þarfarinnar á að tryggja þennan atvinnurekstur landsmanna.