25.11.1933
Efri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

73. mál, búfjárrækt

Flm. (Pétur Magnússon):

Með lögum nr. 42 frá 1919 var sýslunefndum heimilað að gera samþykktir um eftirlit með forðagæzlu, hverri í sínu umdæmi. En í 8. grein þeirra laga er svo fyrir mælt, að þau sveitarfélög, sem gerðu með sér slíkar samþykktir, skyldu vera undanþegin ákvæðum laganna um forðagæzlu frá 10. nóv. 1913. Þessi lög voru svo með nokkrum breyt. tekin upp í lög nr. 32 frá 1931, og í 56. og 57. grein þeirra segir, að hvert sveitarfélag stofni með sér tryggingarsjóð, sem er óskipt eign félagsins, og greiði hver bóndi ákveðna upphæð árlega í sjóðinn, og fer hún eftir bústofni hans, þannig að hann greiðir fyrir hvern nautgrip 40 aura, fyrir hvert hross 20 aura og 4 aura fyrir hverja kind. Allmörg sveitarfélög munu hafa stofnað fóðurbirgðafélög eftir 1. frá 1919. Þar á meðal Landmannahreppur í Rangárvallasýslu. Samþykktir félagsins voru staðfestar 18. nóv. 1922. Hefir hreppsfélagið síðan búið við þetta fyrirkomulag og þar með verið undanþegið ákvæðum forðagæzlul. Árangur af starfsemi þessa fóðurbirgðafélags hefir orðið ágætur. Kostnaður við framkvæmd félagsins hefir reynzt 40—45 kr. árlega. Hey hafa safnazt, fyrningar verið frá 3000—8000 hestar. Hreppsn. getur þess líka, að fénaðarhöld hafi verið góð og fóðurskortur ekki komið fyrir síðan félagið var stofnað. Eins og skiljanlegt er, þar sem fyrirkomulag þetta hefir reynzt vel, er hreppsbúum það áhugamál að fá að búa við sama fyrirkomulag áfram, einkum fyrir það, hve kostnaðarlítið það hefir reynzt og þó veitt fullt öryggi. Hafa þeir því á almennum hreppsfundi, þar sem allir búendur, að einum undanteknum, voru mættir, samþ. í e. hlj. áskorun til þings og stjórnar um að veita þá heimild, er í frv. felst. Eins og hv. þm. sjá, mundi þetta spara hreppnum útgjöld og einnig ríkissjóði. Og þar sem upplýst er, að eldra fyrirkomulagið hefir gefizt þarna vel, þá ætti ekki að vera ástæða til að kúga hreppsbúa eða aðra, sem eins er ástatt um, til að gera slíkar breyt. Óska ég, að hv. deild fallist á frv. og að því, að lokinni umr., verði vísað til hv. landbúnaðarnefndar.