02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

73. mál, búfjárrækt

Jón Ólafsson:

Þetta litla frv. er flutt eftir eindreginni ósk hreppsnefndar Landmannahrepps í Rangárvallasýslu. Það hefir komizt athugasemdalaust í gegnum hv. Ed. og er nú hér til 1. umr.

Frv. fer fram á, að þeir bændur, sem starfrækja fóðurbirgðafélög á grundvelli laganna frá 1919, fái að starfa áfram á þeim sama grundvelli. Þetta fóðurbirgðafélag Landmannahrepps hefir starfað samkv. reglugerð, er staðfest var af stjórnarráðinu 1922, og hefir því búið við hana í meira en 11 ár og gefizt ágætlega. En samkv. búfjárræktarlögunum frá 1931 fellur þessi félagsskapur undir þau, og samkv. þeim hefði félagið geta notið nokkurs styrks; en það hefir ekki notað hann og vill gjarnan vinna það til að vera án hans, heldur en að offra sínu eigin skipulagi, og vill aðeins fá leyfi til að búa áfram við sömu tilhögun. Ég álít, að það sé engin hætta á, að það valdi neinni röskun, þó að þetta undantekningarákvæði verði sett inn í lögin frá 1931. Það eru ekki nema 4 fóðurbirgðafélög í landinu, sem starfa á þessum grundvelli. Ég álít, að þar sem þetta litla frv. fór athugasemdalaust í gegnum Ed., þá sé ekki ástæða til að vísa því til n., en óska, að því verði vísað til 2. umr.