23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

28. mál, innflutningur á sauðfé til sláturfjárbóta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal með ánægju taka það fram, að það er alveg það sama, sem vakir fyrir n. og hv. 2. þm. N.-M. N. ætlast til þess, að þessi heimild, sem í frv. eru ákvæði um, sé ekki þrengd svo, að ekki geti allir fengið þessa undanþágu, sem það vilja. En formsins vegna þykir rétt, að sótt sé um það í hvert skipti, og líka vegna þess, að með því móti er hægt fyrir sauðfjárræktarráðunautinn að fylgjast með þessari fjárrækt. En það er mjög þýðingarmikið vegna þessarar fjárræktar í framtíðinni, að hægt sé að halda nákvæmar skýrslur um þessar tilraunir hér hjá okkur.

En ef í eitt skipti fyrir öll er leyft að ala upp þessa blendinga, þá er mjög örðugt fyrir ráðunaut B. Í. að fylgjast með því, hvað reynslan hefir að kenna okkur í þessu máli. Umsóknir yrðu í raun og veru ekki annað en liður í skráningu þeirra manna, sem vildu fá og fengju leyfin.

Hv. 2. þm. N.-M. talaði um ýmsar gr., sem breyta þurfi í l. frá 1931 til samræmis við undanþáguna, sem um getur í frv. En n. tekur það fram í 1. gr., að öll ákvæði l. skuli undanþegin í samræmi við þessi leyfi og í sambandi við þau. Og okkur í n. virðist, að það muni nægja.

Ég get tekið það fram enn á ný, að aðalmeining hv. 2. þm. N.-M. og n. eru alveg í samræmi.