25.11.1933
Neðri deild: 19. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Frsm. (Ólafur Thors):

Mér þykja þetta hálfléleg rök hjá hv. 2. þm. Reykv. Það er óforsvaranlegt af löggjafarvaldinu að ýta undir þennan rekstur til þess að koma honum af stað með þeirri hugsun að reyna að ná fyrirtækinu í sínar hendur, og þá vitanlega með því að ónýta hlutafjárframlag einstaklinganna. Ef löggjafinn hefir talið þörf á svona rekstri og álitið rétt, að ríkið tæki ábyrgð á þessum 125 þús. kr., þá liggur í því sú viðurkenning, að það skuli ekki vera til fyrirstöðu, þó að fyrirtækið sé eign einstaklinga. Og mér finnst það rétt áframhald, þegar fyrirtækið er búið að sanna gagnsemi sína, með því að veita atvinnu fyrir 250 þús. kr., sem annars hefði farið út úr landinu, að þá rétti ríkið þessu fyrirtæki hjálparhönd, þegar það getur orðið ríkinu áhættulaust og ekki er um stóra upphæð að ræða.