30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (823)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. þm. G.-K. spurði mig um það, hvort mér væri ekki meira kunnugt í þessu máli en ákvæði 8. gr. Mér eru kunnug öll þau plögg, sem hv. þm. las í þessu sambandi, en gat þeirra hinsvegar ekki, af því að þau hafa ekki verulega þýðingu í þessu sambandi. Þau sýna fyrst og fremst, að Slippfélagið er að reyna að færast undan ákvæðum 8. gr. og skapa sér rétt, sem því er ekki áskilinn í gr., og hefir sett sér rýmri eigin reglur, sem hafa ekki verið samþ. af bæjarfélaginu, og hvað sem líður skilningi fyrrv. borgarstjóra á þessu, er mikill munur á hinum gerða samningi og óstaðfestum, sjálfsköpuðum reglum félagsins sjálfs. Ef þau eru lesin saman, kemur þetta greinilega í ljós. í 8. gr. segir svo, að Slippfélaginu skuli heimilt að starfrækja áfram trésmíðastofu þá, sem það nú hefir, og setja upp sérvélar til skipaviðgerðar, enda fái þeir, sem að viðgerðum vinna, afnot þeirra gegn fyrirfram ákveðnu gjaldi. Í 7. gr. starfsreglna Slippsins, sem hv. þm. G.-K. vitnaði í og eru óstaðfestar af hafnarn., segir hinsvegar svo, að eiganda skips sé frjálst að ráðstafa járnaðgerð skips aðeins eftir geðþótta, en alla hreinsun, málun og trévinnu áskilur félagið sér rétt til að framkvæma. Á þessum ákvæðum er slíkur munur, að hverjum manni hlýtur að vera ljóst, að félagið er að reyna að fá breytt ákveðnum samningi, sem það hefir gert. Má vel vera, að félagið sé komið svo langt á veg með þetta gagnvart máttarvöldum bæjarins, að það fái þessa breyt. í gegn. En ég hygg nú, að báðir mættu vel við una, ef till. mín næði fram að ganga, að Slippurinn hefði forgangsrétt við trésmíðavinnuna fyrir þá menn, sem hann nauðsynlega verður að hafa í fastri vinnu vegna uppsáturs skipanna. Ef fleiri manna þarf við, við vinnuna, er eðlilegt, að skipaeigendur ráði þeim sjálfir. Um það, hvernig ganga ætti frá slíkum samningum, ef til kæmi, mun ég leita álits og umsagnar sérfróðra manna og láta gilda það, sem þeir leggja til í málinu.

Þetta er einfalt mál og bersýnilegt, að Slippfélagið er að reyna að komast hjá að standa við gerða samninga. Og nú kemur félagið og biður um aukahjálp í viðbót við alla þá hjálp, sem það er búið að fá áður, og ætlast þar á ofan til, að löggjafarvaldið leggi því lið einnig að þessu leyti.

Hv. þm. G.-K. segir, að ef fyrirtækið verði of dýrselt, muni það aðeins verða til þess, að önnur samskonar fyrirtæki rísi hér upp til að keppa við það, sem selji vinnuna við ódýrara verði. Er þetta rétt orðað eftir samkeppnisteóríunum eins og þær hljóða í bókum, en kemur aðeins ekki heim við veruleikann eins og hann er. Eða finnst hv. þm. G.-K. það trúlegt, að hér geti þrifizt annað samskonar fyrirtæki, þegar þetta eina, sem fyrir er og getur sinnt allri þörf landsmanna í þessum efnum, getur þó ekki komizt af án hjálpar hins opinbera? Og svo mundi slíkt heldur alls ekki leiða til þess að lækka verðið, ef hér risi upp annað samskonar fyrirtæki á þessu sviði, heldur þvert á móti leiða til þess að hækka verðið. Þetta er einmitt höfuðókostur samkeppninnar, eins og þróunin hefir verið á þessum síðustu og verstu tímum, að um leið og fyrirtækjum innan sömu greinar fjölgar, verður það til þess að skapa að jafnaði hærra og hækkandi verð.

Hv. þm. G.-K. talaði um það, að sér væri óskiljanlegt, með hvað miklum „viðbjóði“ ég talaði nú um einokun. Ég veit nú að vísu ekki til þess, að ég hafi talað hér af miklum viðbjóði, en annað mál er það, að einokun og einokun getur verið tvennt ólíkt. Það er mikill munur á því, að ríkissjóður reki t. d. tóbakseinkasölu og hinu, að einhver einstakur maður hafi tóbaksverzlun landsins á valdi sínu og reki hana sér til ágóða. Og það er oft eina bjargráðið, þegar einokunaraðstaða hefir skapazt í höndum einstaklinganna fyrir frjálsa samkeppni, að ríkið komi almenningi til hjálpar og setji sína einokun í staðinn, sem getur orðið öllum þegnum þjóðfélagsins til gagns og blessunar. Ég sé ekki, að félag, sem notið hefir jafnmikillar hjálpar og Slippfélagið og er tryggt með þessum stuðningi, þurfi að verja sig með klóm og kjafti, þótt Alþingi vilji koma í veg fyrir, að fyrirtækið fái einokunaraðstöðu, sem öll sanngirni mælir á móti, að það fái.