30.11.1933
Neðri deild: 23. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (827)

70. mál, dráttarbraut í Reykjavík

Jakob Möller:

Ég sé ekki betur en að hæstv. forsrh. sé hér að setja sig í hið versta skrúfstykki. Hann vill leggja annan skilning í brtt. hv. 1. þm. S.-M. en hún virðist gefa tilefni til. Brtt. er á þessa leið: „enda sé tryggt, að forráðamenn þeirra skipa, sem upp eru tekin á brautina, geti ráðstafað öllum aðgerðum á þeim eftir eigin vild“. Úr þessari brtt. ætlar hæstv. ráðh. að búa til skrúfstykki á sjálfan sig. Það sjá allir, að eftir því sem hann hefir túlkað hana, þá er hún ekki rétt skilin. Í till. eru engin skilyrði sett um það, að Slippfélagið þurfi að taka að sér verk, sem svo lágt er boðið i, að þeir vilji ekkert við það eiga. Verður þá kostnaðurinn við hið fasta mannahald Slippsins að lenda á reikningnum fyrir að draga skipin upp. Verður það þá eigendum skipanna enginn hagur, þó að Slippfélagið verði útilokað frá að framkvæma aðgerðina. Ég get verið sammála hæstv. ráðh. um það, að skrúfstykki geti á margan hátt verið hentug verkfæri, a. m. k. þegar maður þarf ekki að lenda í þeim sjálfur.