23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í C-deild Alþingistíðinda. (891)

51. mál, strandferðir

Jakob Möller:

Ég hefi verið þeirrar skoðunar, að það ætti, þegar fært væri, að taka farþegaflutningana með ströndum fram í hendur landsmanna. En það, sem ég hefi rannsakað málið og fengið út úr viðtölum við þá menn, sem þessu máli eru kunnugastir, hefir gert það að verkum, að ég hefi ekki álítið fært ennþá að flytja slíkt frv. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefnir nú þannig, að ég sé ekki nokkurn möguleika á því, að verða að neinu leyti samferða flm. þess, því að í raun og veru er það sitt hvað, sem þetta frv. stefnir að, og sú hugmynd, að binda farþegaflutningana við íslenzk skip, því að frv. bannar einnig íslenzkum skipum að flytja farþega með ströndum fram. Að vísu er það svo, að fyrst um sinn er það ekki tilgangurinn að banna Eimskipafélagi Íslands að flytja farþega, en hinsvegar öllum öðrum skipum, sem ekki njóta ríkissjóðsstyrks. En það er kunnugt og allir vita, sem nokkurn skapaðan hlut þekkja til fólksflutningsþarfa landsmanna, að það hefir geysimikla þýðingu fyrir almenning í landinu að geta notað allskonar ferðir, sem þeim gefst kostur á, en frv. algerlega bannar. Og mér virðist sá andi vera yfir þessu máli, að það þýði ekkert fyrir aðra, sem þó hugsa sér að koma þessum flutningum í hendur landsmanna, að ætla sér að eiga um það nokkra samvinnu við þessa flm., því að það er alveg sérstök stefna, sem kemur fram í frv., sem er að binda allt við ríkisrekstur, bæði þessar og aðrar framkvæmdir landsmanna. Þess vegna er það, að ég sé ekki neina ástæðu til að greiða þessu frv. atkv. til 2. umr. eða n. Ég býst ekki við, að það leiði til neins samkomulags.