23.11.1933
Neðri deild: 17. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (899)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Fyrir Alþ. í hitteðfyrra lá mál, nokkuð svipað þessu, sem nú liggur hér fyrir. Að því leyti var það þó öðruvísi, að þá var farið fram á að mega selja áfengt öl innanlands, sem framleitt væri í landinu sjálfu. Það mál mætti mótspyrnu í þinginu, og fyrir ofríki mótstöðumanna þess lauk ekki 1. umr. um það, svo að málið sálaðist út af. Og á síðasta þingi var því ekkert hreyft.

Nú er málið flutt í annari mynd. En aðstaðan er breytt frá því í hitteðfyrra að því leyti, að nú hefir þjóðin samþ. afnám bannl. með miklum atkvæðamun. En þrátt fyrir það er hér ekki farið fram á söluleyfi innanlands á þessu öli, heldur er aðeins farið fram á að mega framleiða það til útflutnings.

Eins og í grg. frv. er tekið fram, stendur hér svo sérstaklega á, að hér er eitt firma, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, sem á fullkomin hús og tæki til að framleiða þetta öl. Hér er einnig ágætur ölgerðarmaður, sem stendur ekki að baki öðrum ölgerðarmönnum erlendis. Af þessum ástæðum er ölgerð þessi ágætlega til þess fallin að framleiða 1. fl. öl til útflutnings. Ennfremur má geta þess, að við Íslendingar höfum eitthvert hið bezta vatn í heiminum. Að öllu þessu athuguðu finnst mér, að ef það tækist að fá leyfi til að framleiða hér gott öl til útflutnings, þá séu miklar líkur til þess, að hér megi koma upp fyrirmyndar ölgerð fyrir erlendan markað. Um þetta hefi ég góðar vonir, og yrði þá þetta svo að segja eina íslenzka iðngreinin, sem líkur eru til, að mundi geta skapað okkur útflutningsvöru fyrir erlendan markað.

Ég get ekki séð, að meginástæður séu hinar sömu á móti þessu máli nú eins og síðast, sem voru bindindisástæður. Og þar sem vitanlegt er, að öl er bruggað og drukkið fyrir þúsundir og jafnvel milljónir kr. um allan heim, þá get ég ekki séð, hvaða vit er í því fyrir íslenzka löggjafa að setja þröskuld í veg fyrir það, að við Íslendingar getum notað okkur þá atvinnu eins og aðrar þjóðir, sem af þessari iðngrein má hafa.

Ég vil leyfa mér að benda á það, að eins og í grg. er tekið fram, eru líkur til þess, að með þessu fengist atvinna fyrir nokkra landsmenn og auk þess tekjur fyrir ríkissjóð, án þess að það komi í baga við gildandi áfengislög, hvernig sem þau verða gerð. Ég get ekki annað séð, að öllu athuguðu, en að frv. þetta ætti að fá einróma fylgi hér í þessari hv. d. Geri ég það að till. minni, að málinu verði vísað til iðnn. að aflokinni þessari umr.