02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í C-deild Alþingistíðinda. (905)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Pétur Ottesen:

Það má segja, að sá vilji sem liggur til grundvallar fyrir því að skapa möguleika fyrir nýja vínstrauma inn í landið, komi fram í till. hv. hm. á þessu þingi, bæði í tíma og ótíma. Það hafa komið 3–4 till. um að opna allt upp á gátt fyrir sterkum drykkjum, og er atkvgr., sem fram fór á síðastl. hausti, höfð til skálkaskjóls fyrir því, að á þessu megi ekki verða nein bið. Svo siglir þetta frv. náttúrlega í sama kjölfarið, þó ekki sé hægt að bera þar fyrir sig neina atkvgr., því það hefir engin atkvgr. farið fram um að setja á stofn nýja bruggun.

Ég vil mjög taka undir það með hv. frsm. minni hl., að þingið fari ekki að taka ákvörðun um þetta mál, fyrr en sýnt er, hvernig áfengismálunum reiðir af í heild.

Sú bruggun, sem hér á að hefja, á svo sem einungis að vera til munns og handa útlendinga, en ekki landsmanna sjálfra. En þetta er vitanlega ekki annað en beita, sem sett er á öngulinn, því vitanlega mun annaðhvort viljandi eða óviljandi svo og svo mikið af þessu renna beint niður í kverkarnar á landsmönnum sjálfum. Það er engum blöðum um það að fletta, að landsmenn mundu ekki fara varhluta af áhrifum þessa áfengis; hitt er miklu hæpnara, að standast myndu áætlanirnar um þær millj. kr., sem hv. frsm. meiri hl. var að gera sér vonir um, að myndu streyma inn í landið fyrir þessar tiltektir.

Ég vil ennfremur taka það fram, að þó kannske væri hægt að fleka útlendinginn eitthvað í þessu efni, þá getur verið töluvert varasamt að stuðla að því að koma upp lögverndaðri bruggunarstétt í landinu, því það mun vitanlega leiða til þess, að erfiðara yrði um allar framkvæmdir í þá átt að vinna á móti vínnautn heldur en ef hér væri einungis við að stríða óvin frá öðrum löndum.

Með tilliti til þessa vil ég leyfa mér að leggja til, að málið verði afgr. með rökstuddri dagskrá, sem ég vænti, að allir hv. þm. geti fallizt á, og hún hljóðar svo:

Með því að frekar ber að kosta kapps um að kveða niður bruggun áfengis í landinu en að ýta undir slíka starfsemi, tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá.