02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í C-deild Alþingistíðinda. (909)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Jóhann Jósefsson:

Mér fannst forsendurnar fyrir því að vísa málinu til stj. hjá hv. 2. þm. Reykv. vera nokkuð óljósar. Ég sé ekki, ef á annað borð á að leyfa tilbúning öls í landinu, að ekki mætti þá eins selja það innanlands eins og að flytja það út. (PO: Á, var ekki svo! ). Þjóðin er búin að gefa álit sitt um áfengismálin í heild sinni, og það þýðir það, að þingið getur ekki til lengdar, án stórrar vansæmdar, skotið sér undan því að fara að vilja þjóðarinnar hvað snertir hina sterkari drykki. Og þá finnst mér það óskynsamlegt að banna mönnum aðgang að öli, sem hefir sæmilegan áfengisstyrkleika. Það getur verið, að þetta hneyksli vissa menn, sem endilega vilja láta þjóðina drekka þetta „landa“sull, sem á boðstólum er bæði til sjós og sveita nú orðið. Ég leyfi mér að nota þetta orð um veikt öl, að það hafi sæmilegan áfengisstyrkleika. Til þess að kveða nánar á um það, skal ég upplýsa, að víða um lönd er mikil hreyfing í þá átt að drekka frekar öl heldur en brennivín, whisky og aðra sterkari drykki. Öl, sem hefir 31/2% styrkleika, er ekki mjög áfengt, en nægilega áfengt til þess, að ölið geti geymzt óskemmt. Þúsundir manna í þeim héruðum, þar sem öl er framleitt, gera sig ánægða með þennan veika drykk og mundu, ef þeir hefðu hann ekki, drekka annað sterkara. Hv. 1. þm. Reykv. upplýsti það, að hér á landi væru menn fyllilega ánægðir með þann styrkleika, sem það öl hefði, sem hér er selt. Ég veit ekki, hvað um það skal segja. Ölið er brúkað á ýmsan hátt. þeir, sem kannske hafa eitthvað til að láta út í það, geta gert sig ánægða með þetta ónýta öl. En ég vil benda hv. þm. á það, að hægt er að sanna og sýna fram á, að öl með eins litlu áfengismagni verður beinlínis óhollur drykkur við geymslu. Það myndast í því óholl efni vegna þess að áfengi skortir. (PHalld: Er það verra en áfengi?). Áfengi í hæfilegum skammti er ekki það óhollasta, sem maður lætur ofan í magann.

Ég held, að það yrði litið á það sem einkennilega ráðstöfun þingsins, af öllum, sem skyn bera á þessi mál, ef leyft yrði að flytja inn í landið allra handa sterka drykki, en leyfa alls ekki að drekka veikt öl. Ég veit ekki, hvernig aðrir bindindissinnaðir menn en ég líta á þetta mál, en ég er þess fullviss, að meðal annara menningarþjóða myndi það þykja mjög óviturleg ráðstöfun, ef um leið og leyft er að flytja inn sterka drykki, væri mönnum meinað að drekka veikt öl, en þó nægilega sterkt til að það sé ekki beinlínis óhollt til neyzlu, þegar ráð er orðið nokkurra vikna gamalt.

Af þessum ástæðum vil ég fallast á að vísa málinu til stj., en vil gera það með þeim forsendum, að stj. taki það með í reikninginn við undirbúning áfengislöggjafarinnar, að það sé leyft að búa til það, sem ég kalla hæfilega sterkt öl, með 3–31/2% áfengismagni, jafnframt og farið verður að vilja þjóðarinnar um að leyfa innflutning sterkari drykkja. Í því trausti vil ég greiða atkv. með þeirri till., sem hér liggur fyrir, að vísa málinu til stj.

Dagskrá hv. þm. Borgf. álít ég ekki umtalsverða. Það er þýðingarlaust að ætla sér að útrýma bruggun hér á landi með öðru móti en því, að fólki sé gefinn kostur á að drekka eitthvað, sem betra er og hollara. Annars heldur fólkið áfram að drekka þann óþverra, sem bannlögin hafa skapað hér um margra ára skeið.