02.12.1933
Neðri deild: 24. fundur, 47. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (913)

49. mál, áfengt öl til útflutnings

Ingólfur Bjarnarson [óyfirl.]:

Ég get sagt sama og hv. þm. Mýr., að ég ætlaði ekki að taka til máls við þessar umr. En þau orð, sem fallið hafa, knýja mig til þess að leggja orð í belg. Hv. þm. Mýr. virtist furða sig mjög á hinni „hörðu andspyrnu“, sem hann sagði, að við bindindismenn hefðum haft í frammi. Hún er þó ekki harðari en það, að við viljum, að afgreiðslu málsins verði frestað til næsta árs, þegar áfengislögunum í heild verður endurskipað. Ég get bent á það, að ekki harðsnúnari bindindismaður en hv. þm. Vestm. fellst á þetta. Hinsvegar stórfurðar mig á þeirri ákefð, sem er í meðmælendum þessa frv. að koma því fram nú. Það er vitanlega vegna þess, að þeir vilja vera búnir að tryggja félaginu þennan einkarétt áður en áfengismálin verða endurskoðuð og afgreidd. Ég held því fram, að þeir hafi sjálfir enga trú á því, að þessi heimild verði ölgerðinni til nokkurs hags, og því síður ríkissjóði. Það, sem fyrir þeim vakir, er að fá þennan anga af löggjöfinni fastbundinn áður en nýtt skipulag verður gert. Það er vitanlega alveg fráleitt að hugsa sér að skapa nokkrar tekjur af því að senda þessa vöru út úr landinu til sölu. Ég er hræddur um, að samkeppni erlendu risafyrirtækjanna í þessari grein reyndist nokkuð erfið viðureignar. Eitt er enn, sem sýnir, að ekki er trúin rík hjá hv. flm., og það byggi ég á því, hvernig haga á tekjuöfluninni í ríkissjóð, en það er ákveðið, að í ríkissjóð renni 25% af nettóágóðanum. Já, ég hefði gaman af að sjá þá áætlun eða efnahagsskýrslu, sem sýndi greinilega, hver nettóágóðinn er af útflutningnum einum sér. Ég held, að fáum detti í hug, að hér sé um nokkra tekjulind að ræða fyrir ríkissjóð; Það er salan innanlands, sem á að tryggja með þessu. Á næsta ári stendur til að leyfa þá sölu, og þá er ekki amalegt að hafa einkaleyfi til þess í 10 ár. (JakM: Það gildir bara um útflutning). Já, ég veit það, en ég býst við, að þá þætti ákaflega sanngjarnt, úr því fyrirtækið hefir einkaleyfi til útflutnings, að bæta þessu við. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta frekar, en vil benda hv. þm. á það, að engin nauðsyn er til þess að koma þessu máli í gegn endilega á þessu þingi, því að það er einkaleyfi til sölu innanlands og ekkert annað, sem vakir fyrir flm., þótt þeir láti það síður skína í gegn.